16

Framhaldsskólar bera ábyrgð á að starf þeirra sé í samræmi við aðalnámskrá en hafa jafnframt víðtækar heimildir til þess að laga námskrá að þörfum fatlaðra nemenda, langveikra og þeirra sem eiga við námsörðugleika að etja. Ýmsar aðrar ástæður geta gefið tilefni til að skólastjórnendur veiti undanþágur frá aðalnámskrá. Á prófskírteini nemenda skal ávallt gerð grein fyrir undanþágum frá námsframvindu eða námsmati.

  • Nemendur með fötlun, langveikir og nemendur með sértæka námsörðugleika og/eða aðra staðfesta skynjunarörðugleika sem sérfræðingur á viðkomandi sviði hefur staðfest, geta sótt um undanþágu til skólameistara frá einstökum námsáföngum. Nemendur skulu þó taka aðra áfanga í stað þeirra sem þeir fá undanþágu frá.

    Nemendur geta einnig sótt um undanþágu til skólameistara frá einni námsgrein ef þeir eiga við það mikla námsörðugleika að stríða að þeir geta ekki náð tökum á námsefninu. Slíkir námsörðugleikar skulu staðfestir af sérfræðingi á viðkomandi sviði. Nemendur sem fengið hafa undanþágu frá námi í námsgrein í grunnskóla, geta einnig sótt um undanþágu frá sömu grein í framhaldsskóla. Þeir skulu þó taka aðra grein í staðinn. Áður en undanþága er veitt skal skólameistari gera nemendum grein fyrir því að undanþágan gæti skert möguleika þeirra til náms í skólum á háskólastigi eða möguleika til starfa á viðkomandi starfssviði ef um starfsnám er að ræða.

    • Nemendur sem stunda umfangsmikla líkamsþjálfun á vegum sérsambands og/eða íþróttafélags undir stjórn sérmenntaðs þjálfara, íþróttafræðings eða kennara, samhliða námi í framhaldsskóla, geta óskað eftir því að skólameistari veiti þeim undanþágu frá vissum áföngum eða áfangahlutum í íþróttum, líkams- og heilsurækt.