8

 

 

 

  • Námsgögn hvers konar gegna mjög þýðingarmiklu hlutverki til að ná markmiðum skólastarfs. Samkvæmt grunnskólalögum og lögum um námsgögn eiga nemendur í skyldunámi að fá námsgögn til afnota sér að kostnaðarlausu í þeim námsgreinum og námssviðum sem aðalnámskrá grunnskóla kveður á um. Óheimilt er að krefja nemendur í skyldunámi um greiðslu fyrir kennslu, námsgögn eða annað sem þeim er gert skylt að nota í náminu samkvæmt aðalnámskrá eða skólanámskrá. Einnig er óheimilt að krefja nemendur um greiðslu vegna vettvangsferða, sem eru hluti af skyldunámi þeirra, nema vegna uppihalds í slíkum ferðum, að höfðu samráði við foreldra.

    Námsgögn, kennsluaðferðir og vinnubrögð sem skólar kjósa að viðhafa, skipulag skólastarfsins og námsmat á allt að taka mið af skilgreindum hæfniviðmiðum og vera þannig útfært að möguleikar nemenda á að ná þeim séu nýttir til hins ýtrasta. Til námsgagna telst allt það efni sem notað er til að ná markmiðum náms og kennslu. Námsgögn skulu vera fjölbreytt og vönduð og taka mið af nýjustu þekkingu á sviði menntunar- og kennslufræða. Sem dæmi um námsgögn má nefna prentað efni, s.s. námsbækur, þemahefti, handbækur og leiðbeiningar af ýmsu tagi, myndefni ýmiss konar, s.s. ljósmyndir, kvikmyndir, fræðslu- og heimildarmyndir, veggspjöld, hljóðefni eins og hljómdiska og stafrænar hljóðskrár, tölvuforrit, efni á Netinu, margmiðlunarefni, efni til verklegrar kennslu, útikennslu o.fl. Náttúran og menningarumhverfi skólans er einnig mikilvæg uppspretta náms og þroska.

    Skólasöfn gegna lykilhlutverki við að skapa skilyrði til að þroska og efla skilning nemenda á eðli upplýsinga og gagna sem þeir þurfa að hafa aðgang að í námi sínu og stuðla að frumkvæði og sjálfstæðum vinnubrögðum.

    Námsgögn skulu vera í samræmi við gildandi lög og aðalnámskrá á hverjum tíma. Námsgögn, sem valin eru til notkunar í grunnskólum, þurfa að höfða til nemenda, vera aðlaðandi og áhugavekjandi, efni þeirra skýrt og skipulega fram sett og taka mið af því sem ætla má að nemendur hafi áður tileinkað sér.

    Við gerð námsgagna og val á þeim skal þess gætt að þau taki mið af grunnþáttum menntunar, þ.e. læsi, lýðræði og mannréttindum, jafnrétti, heilbrigði og velferð, menntun til sjálfbærni og skapandi starfa. Námsgögnin skulu höfða jafnt til beggja kynja og mismuna ekki einstaklingum eða hópum vegna kynferðis, kynhneigðar, búsetu, uppruna, litarháttar, fötlunar, trúarbragða eða félagslegrar stöðu.