8

 

 

 

  • Grunnþættir í menntun skulu birtast í öllu skólastarfi. Þeir skulu koma fram í inntaki námsgreina og námssviða, bæði þeim aðferðum sem notaðar eru og þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem nemendur skulu afla sér. Hugmyndirnar að baki þeim skulu því endurspeglast í öllum námsgreinum. Til að öðlast fjölbreytilega hæfni þurfa nemendur að fást við mismunandi viðfangsefni sem tengja má starfsumhverfi og daglegu lífi. Þetta kallar á námsaðferðir og verkefni sem krefjast þess að nemandinn samþætti þekkingu sína og leikni og tengi hana daglegu lífi, áhugamálum og samskiptum við annað fólk. Nefnd eru í greinanámskrám dæmi um hvernig grunnþættir og lykilhæfni fléttast inn í viðfangsefni og verklag einstakra námsgreina.

    Námsgreinar eru mikilvægur hluti skólastarfs en ekki markmið í sjálfu sér. Það er ekki hlutverk skóla að kenna námsgreinar heldur að mennta nemendur og koma hverjum og einum til nokkurs þroska.

    Í viðfangsefnum og aðferðum námsgreinanna kynnast nemendur ólíkum sviðum veraldarinnar; heimi hluta og hugmynda, náttúru og menningu. Þeir fræðast um nærumhverfi sitt og fjarlæg heimshorn, kynnast örheimi efnisagna og víðáttum geimsins. Námsgreinar gefa nemendum færi á að kynna sér og ræða siði og lífshætti, þekkingu og hugmyndir, kenningar og staðreyndir, lögmál og reglur sem gefa lífi þeirra og umhverfi merkingu og tilgang. Námsgreinarnar búa einnig yfir mismunandi aðferðum og verklagi, sem nýtast til náms og þroska. Inntak og verklag mismunandi námsgreina þarf að höfða til rökhugsunar jafnt sem tilfinninga og svara meðfæddri forvitni og sköpunarþrá nemenda. Aðferðafræði og verklag ólíkra námsgreina stuðlar að fjölbreyttu námi og almennri menntun. Í samfélaginu eru verkefni yfirleitt ekki sundurgreind og einangruð heldur samofin mörgum þáttum. Þetta er mikilvægt að hafa í huga við skipulag skólastarfs. Því ætti að vera áhersla á samþættingu námsgreina þar sem horft er til verkefna sem hafa snertifleti við margar námsgreinar. Þannig má nálgast það markmið að gera námið merkingarbærara fyrir nemendur, skýra fyrir þeim samhengi fræðigreina og nauðsyn þess að hafa innsýn í heim þeirra.