7

Í þessum kafla eru dregnar fram megináherslur um nám og kennslu sem eiga að stuðla að því að hver nemandi nái sem bestum árangri miðað við eigin forsendur. Þessi atriði eiga að vera leiðandi í skólastarfi og vera kennurum og stjórnendum skóla leiðsögn við skipulag náms og kennslu. Hver skóli útfærir þessi atriði nánar í skólanámskrá og kennarar í undirbúningi og framkvæmd kennslu.

  • Í 2. grein laga um grunnskóla er lögð áhersla á það meginhlutverk grunnskólans að stuðla að alhliða þroska allra nemenda. Í þessu felst krafan um að nám sé á forsendum hvers og eins nemanda og fari fram í hvetjandi námsumhverfi þar sem hann finnur til öryggis og fær notið hæfileika sinna.

    Nám í grunnskóla tekur mið af þroska, persónugerð, hæfileikum, getu og áhugasviði hvers og eins. Við allt skipulag skólastarfs og kennslu ber að leggja þessi atriði til grundvallar. Það gerir kröfur um að kennari leggi sig fram um að kynnast hverjum þeim nemanda sem hann kennir, meti stöðu hans í námi og hafi bæði nemanda og foreldra hans með í ráðum um þau markmið sem stefnt skal að hverju sinni. Leggja skal áherslu á að foreldrar fylgist með námsframvindu barna sinna.