7

Í þessum kafla eru dregnar fram megináherslur um nám og kennslu sem eiga að stuðla að því að hver nemandi nái sem bestum árangri miðað við eigin forsendur. Þessi atriði eiga að vera leiðandi í skólastarfi og vera kennurum og stjórnendum skóla leiðsögn við skipulag náms og kennslu. Hver skóli útfærir þessi atriði nánar í skólanámskrá og kennarar í undirbúningi og framkvæmd kennslu.

  • Skólinn á að vera griðastaður barna þar sem þau finna til öryggis, fá tækifæri til að þroska og nýta hæfileika sína og njóta bernsku sinnar. Bernsku- og æskuárin eru mikilvægt skeið í ævi hvers einstaklings. Hver skóladagur og hver kennslustund ber í sér þroskamöguleika sem nýta þarf til fulls. Mikilvægt er að halda við eðlislægri forvitni barnsins, hún er ein mikilvægasta forsenda alls náms. Leikurinn er leið ungra barna til að læra á heiminn og læra um heiminn. Miklu skiptir að leiknum sem námsaðferð sé gert hátt undir höfði í grunnskóla og sú áhersla einskorðist ekki við yngstu nemendurna. Í þessum rétti felst einnig að bernsku- og æskuárin hafa tilgang í sjálfu sér en eru ekki eingöngu undirbúningur frekara náms og starfa. Nemendur eiga rétt á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri varðandi námsumhverfi, námstilhögun, fyrirkomulag skólastarfs og aðrar ákvarðanir sem snerta þá. Taka skal tillit til sjónarmiða þeirra eftir föngum. Nemendur eiga að geta komið á framfæri sjónarmiðum sínum í öllu almennu skólastarfi, t.d. með reglulegum umræðum í kennslustundum undir stjórn umsjónarkennara þegar tilefni gefast til. Einnig eiga nemendur að geta komið sjónarmiðum sínum á framfæri í gegnum fulltrúa sína í stjórn nemendafélags og skólaráði.