7

Í þessum kafla eru dregnar fram megináherslur um nám og kennslu sem eiga að stuðla að því að hver nemandi nái sem bestum árangri miðað við eigin forsendur. Þessi atriði eiga að vera leiðandi í skólastarfi og vera kennurum og stjórnendum skóla leiðsögn við skipulag náms og kennslu. Hver skóli útfærir þessi atriði nánar í skólanámskrá og kennarar í undirbúningi og framkvæmd kennslu.

  • Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga vegna grunnskóla beinist að því að efla grunnskóla sem faglegar stofnanir sem geti leyst flest þau viðfangsefni sem upp koma í skólastarfi og veita starfsfólki skóla leiðbeiningar og viðeigandi aðstoð við störf sín.

    Sérfræðiþjónusta tekur annars vegar til stuðnings við starfsemi skóla og starfsfólk þeirra með hagsmuni nemenda að leiðarljósi og hins vegar til stuðnings við nemendur í grunnskólum og foreldra þeirra. Markmið með sérfræðiþjónustu sveitarfélaga er að kennslufræðileg, sálfræðileg, þroskafræðileg og félagsfræðileg þekking nýtist sem best í skólastarfi. Við framkvæmd sérfræðiþjónustu skulu sveitarfélög leggja áherslu á forvarnarstarf til að stuðla markvisst að almennri velferð nemenda og til að fyrirbyggja vanda. Snemmtækt mat á stöðu nemenda og ráðgjöf í kjölfarið er mikilvæg til að sem fyrst sé hægt að bregðast við námslegum, félagslegum og sálrænum vanda og skipuleggja kennslu og stuðning, með starfsfólki skóla, þannig að það hæfi hverjum nemanda í skóla án aðgreiningar. Sérfræðiþjónustan á að mótast af heildarsýn á aðstæður og hagsmuni nemenda óháð starfsstéttum sérfræðinga og hver veitir þjónustuna. Þannig skal velferð nemandans ávallt höfð að leiðarljósi.

    Sérfræðiþjónustan skal styðja á fjölbreyttan hátt við starfsemi og starfshætti í skólum, starfsfólk þeirra og foreldra með ráðgjöf og fræðslu. Viðeigandi túlkaþjónusta er nauðsynleg til að tryggja að upplýsingar og ráðgjöf nýtist foreldrum og nemendum, því er mikilvægt að aðgengi að slíkri þjónustu sé gott.

    Í lögum um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er áhersla á samfellu í skólagöngu nemenda. Því er mikilvægt að við framkvæmd sérfræðiþjónustunnar sé lögð áhersla á góða samfellu og heildarsýn sem birtist í markvissri upplýsingamiðlun um hagi nemenda þegar þeir fara á milli skólastiga. Nauðsynlegt er að ekki verði rof í menntun þeirra við tilfærsluna og tillit tekið til ákvæða laga um slíka upplýsingamiðlun milli skólastiga.