7

Í þessum kafla eru dregnar fram megináherslur um nám og kennslu sem eiga að stuðla að því að hver nemandi nái sem bestum árangri miðað við eigin forsendur. Þessi atriði eiga að vera leiðandi í skólastarfi og vera kennurum og stjórnendum skóla leiðsögn við skipulag náms og kennslu. Hver skóli útfærir þessi atriði nánar í skólanámskrá og kennarar í undirbúningi og framkvæmd kennslu.

  • Mikilvægt er að skólar byggi upp virk tengsl við nærsamfélag sitt og stuðli þannig að jákvæðum samskiptum og samstarfi við einstaklinga, félagasamtök, fyrirtæki og stofnanir. Þetta er mikilvægt til að auka fjölbreytni í námi, t.d. í valgreinum á unglingastigi og til þess að tengja nám nemenda veruleikanum í nærumhverfi þeirra svo það verði merkingarbærara. Þessi tenging snýr t.d. að umhverfi, menningu, listum, íþróttum, félags- og tómstundastarfi og atvinnulífi. Skólinn er oft hjarta byggðarlags þar sem kynslóðir mætast og má líkja við mannlífstorg borga og mikilvægt að skólar nýti möguleika sem bjóðast til að tengja saman ólíkar kynslóðir í samfélaginu. Það er því mikilvægt að virk og góð tengsl séu milli samfélagsins og skólans þar sem gagnkvæm virðing ríkir gagnvart þörfum og skyldum allra aðila. Í skólanámskrá skal gera grein fyrir því hvernig tengslum skólans við nærsamfélagið er háttað.