16

Nám samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er skyldunám og því ekki um undanþágur að ræða frá aðalnámskrá. Þó eru í grunnskólalögum nokkur ákvæði sem heimila undanþágur frá skyldunámi og fyrirmælum aðalnámskrár.

Meginreglan er sú að börn byrja í grunnskóla á því almanaksári sem þau ná sex ára aldri. Samkvæmt bæði leik- og grunnskólalögum má þó flýta eða seinka skólabyrjun. Skólastjóri grunnskóla getur að uppfylltum ákveðnum skilyrðum heimilað að barn hefji skólagöngu fimm ára eða sjö ára.

Grunnskólalög heimila einnig að nemandi ljúki öllu námi grunnskóla á skemmri tíma en tíu árum. Hér er átt við að bráðgerir nemendur geti útskrifast úr grunnskóla fyrr en aldur þeirra segir til um. Er það lagt í hendur skólans með aðstoð sérfræðiþjónustu sveitarfélaga og að frumkvæði foreldra eða fengnu samþykki þeirra að meta hvenær og hvernig flýting af þessu tagi fer fram. Nemendur þurfa að ljúka öllu námi grunnskóla samkvæmt aðalnámskrá áður en þeir útskrifast úr grunnskóla á skemmri tíma en 10 árum. Þrátt fyrir heimild um að ljúka grunnskóla á skemmri tíma en tíu árum ber grunnskólum að bjóða bráðgerum nemendum upp á að dýpka þekkingu sína í námssviðum grunnskólans eða á fjölbreytt val í öðrum greinum, allt eftir áhuga þeirra.

  • Sveitarstjórn getur veitt foreldrum barns undanþágu til þess að annast sjálft menntun þess samkvæmt nánari fyrirmælum sem sett eru í reglugerð. Foreldrar, sem óska eftir undanþágu til að geta kennt börnum sínum heima, að hluta eða öllu leyti, skulu sækja um slíka heimild til síns sveitarfélags. Skólastjóri getur veitt undanþágu að höfðu samráði við skólanefnd og sérfræðiþjónustu. Gert er ráð fyrir að a.m.k. annað foreldrið, sem fær heimild til að annast heimakennslu, hafi réttindi sem grunnskólakennari. Börn, sem hljóta heimakennslu, eru undanþegin skólaskyldu en skulu lúta eftirliti skóla í sveitarfélaginu og reglulegu mati. Þau skulu þreyta samræmd könnunarpróf og eiga aðgang að sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins og annarri stoðþjónustu. Sveitarfélagið tilnefnir tiltekinn grunnskóla til að annast tengsl við heimilið. Æskilegt er að nemendur í heimakennslu eigi kost á að taka þátt í félags- og tómstundastarfi á vegum skólans og tengjast skólanum eftir því sem óskað er. Taka skal tillit til óska nemenda sjálfra um þátttöku þeirra í almennu skólastarfi þótt þau séu í heimakennslu.