11

Líðan barns í leikskóla er samtvinnuð velferð fjölskyldu þess og heimilis. Sjónarmið foreldra og framlag þeirra til leikskólastarfs er mikilvægur liður í því að hafa heildarsýn á velferð og vellíðan barna. Þegar börn hefja leikskólagöngu þurfa foreldrar og leikskóli að leggja grunn að samstarfi þar sem umhyggja og velferð barna er höfð að leiðarljósi. Þar ber leikskólakennurum og öðru starfsfólki að sýna fjölbreyttum fjölskyldugerðum og menningu skilning og virðingu. Samstarf starfsfólks leikskóla og foreldra þarf að byggjast á gagnkvæmum skilningi og virðingu fyrir viðhorfum og þekkingu hverra annarra. Mikilvægt er að á milli þessara aðila ríki traust, þeir geti deilt sjónarmiðum sínum og tekið sameiginlegar ákvarðanir er varða einstök börn.

Við upphaf leikskólagöngunnar er lagður hornsteinn að samstarfi foreldra og leikskóla. Þar gefst foreldrum tækifæri til að kynnast starfsháttum, hugmyndafræði og námskrá leikskólans og starfsfólk leikskólans fær upplýsingar um barnið, aðstæður þess, reynslu og áhugasvið. Á þessum gagnkvæmu upplýsingum byggjast fyrstu skref barnsins í leikskólanum. Foreldrar þurfa strax í upphafi að fá þau skilaboð að framlag þeirra sé mikils metið og litið sé á þá sem mikilvæga samstarfsaðila. Starfsfólki ber að leitast við að ná til foreldra allra barna.

Dagleg samskipti þurfa að einkennast af vilja til samvinnu og virðingu fyrir tilfinningum og skoðunum barna, foreldra, leikskólakennara og annars starfsfólks. Tíðust samskipti fara fram þegar foreldrar koma með börn sín og sækja þau í leikskólann og mikilvægt er að sá tími sé nýttur til daglegra samskipta sé þess kostur. Einnig þarf starfsfólk leikskóla að grípa þau tækifæri sem gefast til að veita foreldrum upplýsingar um leikskólastarfið og barnið þeirra og til að hlusta á viðhorf og hugmyndir foreldra. Að sama skapi er mikilvægt að foreldrar séu hvattir til að spyrjast fyrir um starfið í leikskólanum og leikskólagöngu barna sinna.

Í reglubundnum samtölum foreldra og leikskólakennara gefast tækifæri á markvissum samræðum um líðan, nám og þroska barns heima og í leikskólanum. Foreldrar þekkja börn sín best og styðja við skólagöngu þeirra með því að veita mikilvægar upplýsingar sem leggja grunn að námi barnsins. Jafnframt eiga foreldrar að hafa gott aðgengi að öllum upplýsingum um leikskólastarfið og börn sín svo að þeir geti fylgst með skólagöngu þeirra, veitt þeim stuðning og hvatningu.

Hvatt er til þátttöku fjölskyldna í leikskólastarfi og að byggt sé á þeirri hugmynd að fjölskyldan og leikskólinn séu samstarfsaðilar. Leitast skal við að hlusta eftir sjónarmiðum foreldra og stuðla að áhrifum þeirra m.a. í gegnum foreldraráð leikskólans og þátttöku í innra mati. Leikskólakennarar ígrunda og meta sjónarmið barna og framlag foreldra til leikskólastarfsins. Með fagmennsku sinni bera þeir ábyrgð á að skipulag starfsins taki mið af heildarhagsmunum allra sem að því koma.