6

Leikskóli er vettvangur þar sem leggja á áherslu á gildi og starfshætti sem renna stoðum undir lýðræðislegt samfélag. Í leikskóla eiga foreldrar, starfsfólk og börn að vera samstarfsaðilar.

Lýðræðislegt leikskólastarf byggist á jafnrétti, fjölbreytileika, samábyrgð, samstöðu og viðurkenningu fyrir ólíkum sjónarmiðum. Þar eiga börn að finna að þau eru hluti af hópi og samfélagi þar sem réttlæti og virðing einkenna samskipti. Litið er á börn sem virka borgara og þátttakendur þar sem hver og einn fær tækifæri til að leggja sitt af mörkum til að hafa áhrif á umhverfi sitt.

Í leikskóla ber að stuðla að jafnrétti og virkri þátttöku barna í samfélaginu með því að skapa þeim tækifæri til að upplifa lýðræðisleg vinnubrögð og samskipti í daglegu starfi. Þannig öðlast þau skilning á því hvað lýðræði felur í sér, læra lýðræðisleg gildi og vinnubrögð og þróa með sér borgaravitund. Virða skal innsæi, reynslu, færni og skoðanir barna og taka mið af sjónarmiðum þeirra við skipulagningu leikskólastarfs og gefa þeim þannig tækifæri til að taka þátt í ákvörðunum um verkefni og vinnubrögð.

Þarfir og áhugi sem börn láta í ljós á fjölbreyttan hátt eiga að vera sá grunnur sem mótar umhverfi og starfshætti leikskólans. Í samstarfi við önnur börn og fullorðna skiptast þau á skoðunum, finna lausnir og miðla málum.

Í daglegu starfi leikskóla skal leggja áherslu á umhyggju, tillitssemi og samhjálp meðal allra í leikskólanum. Jafnframt skal nýta tækifæri sem gefast til að fjalla um samkennd og samlíðan gagnvart öðru fólki. Lögð skal áhersla á að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings og veita börnum stuðning í daglegum samskiptum.

  • Leikskóla ber að vera vettvangur þar sem allir:
  • taka virkan þátt í samræðum um almenn málefni,
  • hlusta hver á annan og skiptast á skoðunum,
  • bera ábyrgð á sjálfum sér og gjörðum sínum,
  • vinna saman og aðstoða hver annan,
  • hafa val um verkefni og vinnubrögð,
  • hafa áhrif á leikskólastarfið,
  • taka þátt í heimspekilegum umræðum,
  • vinna að jöfnum tækifærum kynjanna til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni.