5

Leikskólinn er fyrsta stig skólakerfisins og upphaf formlegrar menntunar einstaklinga. Leikskólaaldurinn er mikilvægur tími náms og þroska. Í samstarfi við foreldra á leikskólinn að kappkosta að fylgjast með og efla alhliða þroska allra barna, veita öllum börnum hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og stuðla að öryggi þeirra og vellíðan. Leggja skal áherslu á styrkleika barna og hæfni og þörf þeirra fyrir vernd og leiðsögn fullorðinna. Leikskólum ber að sinna forvarnarstarfi með því að stuðla markvisst að velferð barna og farsælli skólagöngu þeirra. Starfsfólk leikskóla skal grípa til viðeigandi ráðstafana ef þörf krefur þannig að öll börn fái sem best notið sín miðað við þroska og þarfir hvers og eins.

Í leikskólastarfi mynda hugtökin uppeldi, umönnun og menntun eina heild. Börnum er sýnd virðing og umhyggja og þau fá hvatningu og viðfangsefni við hæfi. Litið er á þau sem fullgilda þátttakendur í samfélagi leikskólans.

Eftirfarandi leiðarljós eiga að vísa leikskólum veginn í mótun leikskólastarfs. Starfsfólk leik­skóla, í samráði við foreldra og börn, þarf að koma sér saman um hvernig starf leikskólans tekur mið af leiðarljósunum og skrá aðferðir og leiðir í skólanámskrá leikskólans:

Leiðarljós

 • Leikskóli á að vera lýðræðislegur vettvangur og lærdómssamfélag þar sem starfsfólk, foreldrar og börn eru virkir þátttakendur og hafa áhrif á ákvarðanir um málefni leikskólans.
 • Starfshættir leikskóla eiga að hvetja til samvinnu og samstarfs milli barna, starfsfólks, foreldra og nærsamfélags.
 • Leikskóli á að vera félags- og menningarlegur vettvangur þar sem þjóðararfur og gildi íslensks samfélags skipa veglegan sess.
 • Leikskóli á að vera samfélag þar sem hver einstaklingur nýtur virðingar og leggur sitt af mörkum.
 • Starfshættir leikskóla eiga að taka mið af umhverfi leikskólans og því samfélagi sem hann er í. Jafnframt á leikskólinn að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og hafa áhrif á það.
 • Leikskólastarf skal byggjast á jafnrétti, virðingu fyrir margbreytileika mannlífsins og öðrum menningarheimum.
 • Virða skal rétt allra sem þar dvelja, óháð kynferði, bakgrunni, aðstæðum eða getu og leitast við að koma til móts við þarfir allra.
 • Menntun til sjálfbærni á að endurspeglast í öllu starfi leikskóla í virku samstarfi við heimili og nærsamfélag.Í leikskóla þarf að finna fjölbreyttar leiðir til samstarfs við fjölskyldur og leita margvíslegra leiða til að koma á framfæri upplýsingum um starfshætti og starf leikskólans.
 • Starfshættir leikskóla eiga að stuðla að því að börn læri að bera virðingu og umhyggju fyrir öðru fólki, þrói með sér samkennd, tillitssemi og vináttu.
 • Í leikskóla á að stuðla að því að börn þrói með sér jákvæða sjálfsmynd með því að virða sérstöðu og sjónarmið hvers einstaklings.
 • Í leikskóla eiga börn að fá tækifæri til að fást við viðfangsefni sem taka mið af áhuga þeirra, styrkleikum og þroska þannig að trú þeirra á eigin getu aukist og hneigð þeirra til náms eflist.
 • Í leikskóla á að byggja á reynsluheimi barna og skapa þeim merkingarbæra reynslu.
 • Í leikskóla á að leggja áherslu á sjálfstæði og frumkvæði og hvetja á hvert barn til að taka ábyrgð á sjálfu sér.
 • Starfshættir leikskóla eiga að stuðla að virðingu barna fyrir náttúru og umhverfi sínu.
 • Í leikskóla eiga börn að fá tækifæri til fjölbreyttrar hreyfingar og útiveru.
 • Í leikskóla eiga börn að fá tækifæri til að fást við fjölbreytt verkefni sem bjóða upp á margar lausnir og hvetja til rannsókna og ígrundunar.
 • Starfshættir leikskóla eiga að hvetja til gagnrýninnar hugsunar og gefa börnum færi á að virkja sköpunarkraft sinn.
 • Í leikskóla á að hvetja börn til að túlka og tjá sig á fjölbreyttan hátt, m.a. í gegnum leik, hreyfingu, myndmál, tónlist, tungumál, tölur og tákn.
 • Í leikskóla á að skapa aðstæður fyrir börn til að leika sér svo að þau fái svigrúm fyrir ímyndunarafl sitt og sköpun.
 • Starfshættir leikskóla eiga að hvetja börn til að tjá sig og hlusta á frásagnir, sögur, ljóð og ævintýri.
 • Í leikskóla á að nýta þau tækifæri sem gefast í daglegum samskiptum til að efla íslenska málvitund þar sem börn læra ný orð og hugtök og þróa tungumálið.