8

Húsnæði og búnaður leikskóla, leikvöllur og nærumhverfi mynda námsumhverfi leikskóla því leikskólabörn læra bæði úti og inni. Skipulag, hönnun og nýting námsumhverfis endurspeglar þau viðhorf og gildi sem liggja að baki leikskólastarfinu. Umhverfið er jafnframt mikilvægur áhrifaþáttur í námi barna og þarf hönnun þess, nýting og skipulag að taka mið af reynslu, áhuga og þroska ólíkra barna.

Þegar námsumhverfi leikskóla innan- og utandyra er skipulagt þarf að hafa í huga markmið leikskólastarfsins, notagildi og fagurfræðilega þætti. Umhverfið þarf að vera öruggt, heilsusamlegt og jafnframt hvetjandi og aðlaðandi. Leggja skal alúð í skipulag og hönnun umhverfis þar sem verk barna njóta sín.

Námsumhverfi leikskóla þarf að henta fjölbreyttum hópum barna og starfsfólks. Það þarf að geta tekið breytingum og þróast með tilliti til þarfa og áhuga þeirra sem þar dvelja. Börn og foreldrar eiga að fá tækifæri til að hafa áhrif á skipulagningu námsumhverfisins í samráði við starfsfólk leikskóla.

Húsnæði þarf að vera skipulagt þannig að það stuðli að samskiptum milli barna, milli starfs­fólks og barna og milli starfsfólks og foreldra. Skipuleggja þarf svæði þar sem leikur og nám fara fram í litlum hópum, rými þar sem börn geta verið í ró og næði, svæði þar sem börn geta leikið í stærri hópum og rými þar sem svigrúm er fyrir fjölbreytta hreyfingu. Umhverfi leikskóla þarf að vera sveigjanlegt þannig að börn geti nýtt það á ýmsa vegu og farið frjálst frá einum stað til annars, fengið hugmyndir og nýtt efnivið sem þar er að finna.

Efniviður leikskóla á að vera margbreytilegur og höfða til ólíkra barna á ólíkum aldri. Mikilvægt er að endurmeta og þróa leikefni reglulega. Leikefni þarf að vera hvetjandi og höfða til mismunandi skynjunar og örva börnin til rannsókna og kannana. Mikilvægt er að börn geti notað leikefni á fjölbreyttan hátt og byggt á reynslu sinni. Leikefni þarf að vera aðgengilegt börnum. Rými og efniviður þarf að vekja forvitni barna og ýta undir ímyndunarafl þeirra, sköpunarkraft og tjáningu þannig að hugmyndir þeirra njóti sín.

Leikskólalóð er mikilvægt námsrými sem á að hvetja börn til leiks, til að rannsaka, hreyfa sig og tjá sig á mismunandi vegu. Til að svo megi vera þarf að huga að fjölbreytileika, m.a. í landslagi, jarðvegi, gróðri og þeim efnivið sem börnin hafa aðgang að.

Nærumhverfi leikskóla er margbreytilegt og mismunandi eftir staðsetningu leikskólans. Náttúran býður upp á fjölbreyttan efnivið og margvísleg tækifæri til rannsókna og uppgötvana. Manngert umhverfi í nágrenni leikskóla er einnig mikilvægt námsumhverfi sem börn þurfa að fá tækifæri til að kynnast og læra af.