7

Leikur er órjúfanlegur þáttur bernskuáranna og þungamiðja leikskólastarfsins. Leikur er sjálf­sprottinn og börnum eðlislægur. Þau leika sér af fúsum og frjálsum vilja og á eigin forsendum. Leikur getur veitt gleði og vellíðan en jafnframt falið í sér valdabaráttu og átök.

Leikur er meginnámsleið barna. Hann skapar börnum tækifæri til að læra og skilja umhverfi sitt, tjá hugmyndir sínar, reynslu og tilfinningar og þróa félagsleg tengsl við önnur börn. Þegar börn leika sér saman mynda þau félagslega hópa og skapa eigin menningu. Þau taka þátt í lýðræðislegum athöfnum þegar þau setja fram eigin hugmyndir og þurfa jafnframt að skilja hlutina frá sjónarmiði annarra.

Í leik geta börn unnið með og gert tilraunir með hugmyndir sínar og öðlast nýjan skilning og nýja þekkingu. Í leik skapast vettvangur þar sem spurningar vakna og börn leysa vandamál sem upp koma, á eigin forsendum. Í leik eflast vitrænir og skapandi þættir. Leikurinn kallar á fjölbreytta notkun tungumálsins, hreyfingu, félagsleg samskipti og tilfinningatengsl. Leikur getur virkjað sköpunarkraft barna og löngun þeirra til að læra og afla sér þekkingar.

Leikur getur verið bæði markmið og leið í leikskólastarfi. Þegar leikur er nýttur sem leið eru sett fram ákveðin markmið sem ætlunin er að ná í gegnum leikinn. Námssvið leikskólans fléttast inn í leik barna þegar starfsfólk tengir á markvissan hátt markmið þeirra við leik.

Leikskólakennarinn kynnir börnum nýja möguleika og skapar þannig sameiginlega reynslu sem nýtist í leik. Mikilvægt er að vera vakandi fyrir áhuga barna og því sem gerist, spyrja opinna spurninga og vinna markvisst með það sem börn eru að fást við og sýna því áhuga. Í leik læra börn hvert af öðru en hlutverk hins fullorðna í leik barna er engu síður mikilvægt og margþætt.

Hlutverk leikskólakennara er að styðja við nám barna í gegnum leik á margvíslegan hátt, m.a. með því að:

  • skapa fjölbreytilegt leikumhverfi og veita aðgengi að leikefni sem hvetur börn til að rannsaka, finna lausnir og skapa,
  • gefa leik nægan og samfelldan tíma,
  • gefa leik nægjanlegt rými svo að börnin hafi svigrúm til að hreyfa sig og til að þróa leik og dýpka,
  • styðja við sjálfsprottnar athafnir og áhuga,
  • eiga samskipti við börn og mynda tengsl við þau í gegnum leik,
  • vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem upp koma í leik og nota þau til að kveikja áhuga barna og styðja við nám þeirra,
  • styðja við og efla jákvæð samskipti í leik,
  • sjá til þess að öll börn hafi tækifæri til þátttöku í leik úti og inni.