13

Á grunni aðalnámskrár á sérhver leikskóli að móta sína eigin skólanámskrá. Námskráin á að vera skrifleg og aðgengileg öllum þeim sem málið varðar. Í skólanámskrá á að gera grein fyrir hvernig leikskólinn hyggst vinna að þeim markmiðum sem aðalnámskrá leikskóla setur, hvaða leiðir verða farnar og hvernig staðið er að mati. Jafnframt skal fjallað um þau gildi sem starf leikskólans byggist á og þær hugmyndafræðilegu áherslur sem tekið er mið af. Í skólanámskrá eiga einnig að koma fram þær áherslur og leiðir sem leikskólinn hefur ákveðið að fara í samskiptum við börn, starfsfólk, foreldra og nærsamfélagið. Áður en að skólanámskrá öðlast gildi skal nefnd kjörin af sveitarstjórn staðfesta námskrána að fenginni umsögn foreldraráðs.

Skólanámskrá skal endurskoða reglulega. Skólanámskrá leikskóla á að taka mið af áhuga barna og sjónarmiðum og skal unnin í samvinnu leikskólakennara, annars starfsfólks, barna og foreldra. Með þátttöku og samræðum þessara aðila mótast helstu áherslur og viðmið í starfi leikskóla. Skólanámskráin er því eins konar sáttmáli um hvaða leiðir hver leikskóli ætlar að fara í starfsaðferðum og samskiptum til að efla menntun barna og stuðla að starfsþróun og fagmennsku innan leikskólans.

Leikskólar gera starfsáætlun þar sem fjallað er um árlega starfsemi leikskólans, birt skóladagatal og ýmsar aðrar hagnýtar upplýsingar um skólahald hvers leikskóla. Þar geta einnig komið fram helstu áherslur í foreldrasamstarfi, innra mati, tengslum leikskóla og grunnskóla, stoðþjónustu og fyrirkomulagi öryggis- og slysavarnamála eftir því sem við á. Áætlunin er unnin í nánu samstarfi við leikskólakennara, annað starfsfólk, börn og foreldra. Unnt er að vinna starfsáætlun þannig að starfsemi síðasta skólaárs sé metin við gerð hennar. Þannig gefst tækifæri til að ræða árlega þá þætti sem þessir aðilar telja mikilvæga og eru ánægðir með og jafnframt þá þætti sem þeir telja að megi bæta. Áætlunin þarf að fá umsögn foreldraráðs áður en nefnd kjörin af sveitarstjórn tekur hana til afgreiðslu samkvæmt lögum um leikskóla.

Leikskóli verður að vera í stöðugri þróun, fylgja straumum og stefnum á hverjum tíma og auka þekkingu og framfarir í leikskólanum til hagsbóta fyrir skólasamfélagið í heild. Þróunarstarf getur m.a. falist í skipulögðum verkefnum sem eiga að leiða til nýbreytni, þróunar og umbóta í leikskólastarfinu. Markmið þróunarverkefnis, tímaáætlun, skipulag og leiðir þurfa að liggja fyrir áður en það hefst. Meta þarf árangur þess, hvort og hvernig markmið náðust og miðla reynslunni með öðrum sem að leikskólastarfi koma