Skólaganga barna á að mynda samfellda heild þannig að reynsla og nám barna á fyrri skólastigum nýtist þeim á næsta skólastigi. Að ljúka leikskólanámi og byrja í grunnskóla felur í sér breytingar fyrir börn og fjölskyldur þeirra. Mikilvægt er að nám og uppeldi í grunnskóla byggist á fyrri reynslu og námi barna, til að skapa þeim öryggi og ný námstækifæri. Þannig þarf sú þekking og þau viðfangsefni, sem börnin voru að fást við í leikskólanum, að verða grunnur sem grunnskólanámið byggist á, jafnframt því sem þau fá tækifæri til að takast á við ögrandi verkefni og öðlast nýja reynslu.
Ef flutningur barna úr leikskóla í grunnskóla á að vera farsæll þarf að undirbúa hann vel fyrir og eftir lok leikskólanáms. Leikskólabörn eiga að fá tækifæri til að kynnast umhverfi og starfi grunnskóla meðan þau eru enn í leikskóla og viðhalda góðum tengslum við leikskólann eftir að grunnskólanám hefst. Líta ber á síðasta ár barna í leikskóla og fyrsta ár þeirra í grunnskóla sem mikilvægan þátt í ævimenntun barna.
Við lok leikskóla liggja fyrir ýmsar upplýsingar um börnin. Til að tryggja að byggt sé á fyrra námi og reynslu leikskólabarna og grunnskólaganga þeirra verði eins og best verður á kosið, er gert ráð fyrir að tilteknar upplýsingar um hvert barn, sem nauðsynlegar eru fyrir velferð þess og þroska, fylgi því í grunnskólann. Foreldrar eru mikilvægir tengiliðir milli skólastiganna sem geta miðlað upplýsingum um börn sín og leikskólagöngu þeirra. Þeir eiga jafnframt rétt á að fá vitneskju um þau gögn sem fylgja barninu úr leikskólanum í grunnskólann og gefast kostur á að bregðast við þeim. Leitast skal við að börnin fái einnig tækifæri til að láta í ljós sjónarmið sín um þau gögn og upplýsingar sem fylgja þeim milli skólastiga.
Tengsl leikskóla og grunnskóla er samstarfsverkefni barna, foreldra, kennara og annars starfsfólks beggja skólastiga, þar sem barnið, velferð þess, þroski og menntun eru í brennidepli. Kennarar á báðum skólastigum eiga að kynna sér nám og starfsaðferðir hvers annars, leita leiða til að móta samstarf og skapa samfellu í námi barna í því augnamiði að auka sjálfstraust barna og styðja við nám þeirra. Gera þarf grein fyrir markmiðum, fyrirkomulagi og uppbyggingu samstarfs og tengsla milli skólastiga í skólanámskrá hvers leikskóla.
Comments:
|