Í aðalnámskrá leikskóla er að finna áherslu á gildi leiksins og mikilvægi lýðræðis og jafnréttis í öllu leikskólastarfi. Sett eru fram leiðarljós leikskólastarfs og fjallað um námssvið leikskóla. Áhersluþættir námssviðanna endurspegla grunnþætti menntunar og þar má finna þá hæfniþætti sem börn í leikskóla eiga að fá tækifæri til að tileinka sér.
Aðalnámskránni er ætlað að vísa ólíkum hagsmunaaðilum í skólasamfélaginu veginn hvað varðar stefnu og hugmyndafræði leikskólastarfs. Hún er leiðbeining fyrir sveitarfélög við mótun stefnu um skólahald, er leikskólastjórnendum og kennurum sveigjanlegur rammi til að ákveða leiðir að markmiðum í leikskólastarfi, er sáttmáli í þágu barna sem byggist á heildstæðri sýn á barnið með hagsmuni þess og velferð að leiðarljósi og þjónar foreldrum m.a. sem upplýsingarit um viðmið og kröfur í menntun og uppeldi barna. Leikskólar geta farið fjölbreyttar leiðir að sama marki með hliðsjón af hugmyndafræði leikskólans og aðstæðum á hverjum stað. Hver leikskóli mótar sínar starfsaðferðir og setur þær fram í skólanámskrá og starfsáætlun leikskólans.
Leikskólinn er fyrir börn upp að skólaskyldualdri. Lög um leikskóla og grunnskóla heimila hins vegar að börn ljúki leikskólanámi og hefji grunnskólanám fyrr eða síðar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meginreglan er hins vegar sú að börn séu í leikskóla til sex ára aldurs. Í lögum um leikskóla er fjallað um markmið leikskólastarfs í 2. gr. laganna.
2 . gr.
Markmið.
í leikskólum á velferð og hagur barna að vera leiðarljós í öllu starfi. Veita á börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla á að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla eiga að mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar.
Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla eru að:
-
fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,
-
veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,
-
hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,
-
stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,
-
leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,
-
rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.
|
Á grundvelli markmiða laga um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla hafa verið settir fram eftirfarandi grunnþættir menntunar:
-
læsi,
-
sjálfbærni,
-
heilbrigði og velferð,
-
lýðræði og mannréttindi,
-
jafnrétti,
-
sköpun.
Grunnþættirnir eru sameiginleg leiðarljós í menntun, uppeldi og umönnun í leikskólum og eiga að fléttast inn í allt leikskólastarfið.
Allt starfsfólk leikskóla á að koma fram við börn af virðingu, taka tillit til þeirra og hlusta á þau. Starfsfólk skal leitast við að vera í gefandi samskiptum við börn, samstarfsfólk og fjölskyldur barna og vera góð fyrirmynd í hvívetna. Starfsfólki ber að vinna í anda aðalnámskrár og tileinka sér þá sýn sem sett er fram í skólanámskrá hversleikskóla.
Hlutverk leikskólastjóra
Leikskólastjóri er faglegur leiðtogi og í forystu um þróun metnaðarfulls leikskólastarfs. Hann leiðir lýðræðislegt samstarf ólíkra hópa sem starfa innan leikskólans, stuðlar að jafnrétti og uppbyggilegum samskiptum með velferð barna að markmiði. Leikskólastjóri ber ábyrgð á að starf leikskólans sé metið reglulega með innra mati og að niðurstöður séu notaðar til úrbóta í þágu starfsins. Honum ber að sjá til þess að starfsfólk fái tækifæri til að bæta við þekkingu sína og vera í stöðugri starfsþróun. Það er hlutverk leikskólastjóra að sjá til þess að farið sé eftir aðalnámskrá leikskóla og enn fremur lögum og reglugerðum sem snerta leikskólann.
Hlutverk leikskólakennara
Leikskólakennari á að vera leiðandi í mótun uppeldis- og menntastarfsins, fylgjast með nýjungum og miðla þekkingu. Hann á að vera góð fyrirmynd í starfi með börnum og leitast við að styrkja faglegt hlutverk leikskólans. Litið er á leikskólakennara sem leiðandi samverkamann barna, foreldra og annars starfsfólks leikskóla. Honum ber að sjá til þess að hvert barn sé virt að verðleikum og að námsumhverfið sé skipulagt á þann veg að börn fái notið bernsku sinnar.
Comments:
|