10

Mat á námi, þroska og velferð barna felur í sér að safnað er upplýsingum um það sem börn fást við og hafa áhuga á; hvað þau vita, geta og skilja. Upplýsingarnar eru notaðar til að styðja nám og velferð barna við skipulagningu leikskólastarfsins og í samstarfi við foreldra. Um er að ræða ferli sem á að vera samþætt daglegu starfi leikskólans og fela í sér skipulagningu, skráningu, mat og ígrundun á námi, þroska og velferð barna.

Markmið mats er að auka þekkingu og skilning leikskólakennara og annars starfsfólks, foreldra og barna á þroska barna, námi og líðan. Matið á einnig að tryggja að starfsemi leikskóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá leikskóla og að réttindi barna séu virt.

Mat á að beina sjónum að áhuga barna, getu þeirra og hæfni. Börn sýna getu, þekkingu, hæfni og áhuga á ólíkan hátt. Mat á þar af leiðandi að vera einstaklingsmiðað og til þess gert að efla hvert barn. Á grundvelli þess skal veita þeim námstækifæri og stuðning við hæfi svo að þau geti tekið virkan þátt í skólastarfinu.

Sérfræðiþjónusta sveitarfélaga í leikskólum skal stuðla að jafnrétti til náms og vellíðan allra barna. Sérfræðiþjónustan veitir ráðgjöf og fræðslu vegna barna ef foreldrar og/eða starfsfólk leikskóla telja þess þurfa til að geta veitt börnunum sem besta menntun, uppeldi og umönnun og umhverfi við hæfi.

Þegar fylgst er með þroska, námi og velferð barna er lögð áhersla á:

  • alhliða þroska,
  • sjálfstæði,
  • áhugasvið,
  • þátttöku í leik úti og inni,
  • félagsfærni og samkennd,
  • frumkvæði og sköpunarkraft,
  • tjáningu og samskipti.

Hver leikskóli á að þróa fjölbreyttar aðferðir við að safna, skrá, skipuleggja og greina upplýsingar um þroska barna, nám, vellíðan og færni og móta sérstakt vinnulag þar um. Fjalla þarf um vinnulagið í skólanámskrá, hafa það aðgengilegt þeim sem málið varðar og tengja það innra mati leikskólans eftir því sem við á.

Mikilvægt er að mat byggist á þátttöku og samvinnu leikskólakennara, annars starfsfólks leikskóla, foreldra og barna. Börn eiga að fá tækifæri til að taka þátt í að meta nám sitt, setja sér markmið og koma með tillögur að leiðum sem best er að fara. Foreldrar búa yfir mikilvægum upplýsingum og þekkingu á börnum sínum og eiga að taka þátt í mati á líðan þeirra og námi. Mat, sem unnið er í samstarfi leikskóla, foreldra og barna, stuðlar að betri skilningi og innsýn í námsferli barna, áhuga þeirra og styrkleika. Það auðveldar foreldrum að styðja við börn sín heima og eykur vitund barna um eigin getu og styrkleika og hvernig þau læra best. Mat á þannig að efla sjálfstraust og sjálfsmynd barnsins og stuðla að jafnrétti til menntunar.