HÆFNIVIÐMIÐ KJARNAGREINA

Kjarnagreinar framhaldsskóla eru íslenska, stærðfræði og enska. Allar námsbrautir skulu að jafnaði gera kröfu til þess að nemendur öðlist að minnsta kosti hæfni sem nemur lýsingu á fyrsta hæfniþrepi kjarnagreina. Við skipulag námsbrauta geta hæfniviðmið brautanna falið í sér kröfu um að nemendur þurfi að ná meiri hæfni í kjarnagreinum.

Hér á eftir fara lýsingar á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem einkennir hvert hæfniþrep í kjarnagreinum.

  • HÆFNIÞREP 1

     

    ÞEKKING

    Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:

    • grunnhugtökum í ritgerðasmíð,
    • helstu málfræðihugtökum og ritreglum sem nýtast í tal- og ritmáli,
    • orðaforða umfram það sem tíðkast í talmáli,
    • mismunandi lestraraðferðum, nokkrum tegundum bókmennta og nytjatexta og helstu hugtökum sem nýtast við umfjöllun um bókmenntir.

    LEIKNI

    Nemandi skal hafa öðlast leikni í:

    • að skrifa ýmsar tegundir nytjatexta í samfelldu máli þar sem framsetning er skýr og skipulögð,
    • notkun leiðréttingarforrita og annarra hjálpargagna til að lagfæra eigin texta,
    • að nýta algengustu hugtök í málfræði til að bæta eigin málfærni,
    • mismunandi blæbrigðum og málsniði í tal-og ritmáli,
    • að draga saman aðalatriði í fyrirlestrum og ritmáli, leita upplýsinga úr heimildum og nýta þær á viðurkenndan hátt sér til gagns,
    • að taka saman og flytja stuttar endursagnir, lýsingar og kynningar á afmörkuðu efni,
    • að lesa sér til gagns og gamans texta sem gera nokkrar kröfur til lesenda og skilja algengt líkingamál og orðatiltæki.

     

    HÆFNI

    Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

    • semja stutta texta af ýmsu tagi með viðeigandi málfari,
    • leggja stund á tungumálanám, til dæmis með því að nýta sér orðasöfn og algengustu málfræðihugtök,
    • beita einföldum blæbrigðum í málnotkun til að forðast einhæfni og endurtekningar,
    • halda uppi samræðum og rökstyðja eigin fullyrðingar, ákvarðanir eða skoðanir á málefnalegan hátt,
    • túlka og meta atburðarás og persónur í bókmenntum eða annars konar frásögnum.

     

     

    HÆFNIÞREP 2

    ÞEKKING

    Nemandi skal hafa aflað sér þekkingar og skilnings á:

    • helstu hugtökum í ritgerðasmíð,
    • málfræðihugtökum og ritreglum sem nýtast í tal- og ritmáli,
    • orðaforða sem nægir til að skilja íslenskt nútímamál í ræðu og riti,
    • mismunandi tegundum bókmennta, nytjatexta og nokkrum lykilverkum íslenskra bókmennta ásamt grunnhugtökum í bókmenntafræði.

    LEIKNI

    Nemandi skal hafa öðlast leikni í:

    • ritun rökfærsluritgerða þar sem hann beitir gagnrýninni hugsun og kemur skoðunum sínum á framfæri á skýran og greinargóðan hátt,
    • markvissri notkun viðeigandi hjálpargagna við frágang ritsmíða,
    • að nýta málfræðihugtök og málfræðilegar upplýsingar til að efla eigin málfærni,
    • að skilja og nota algeng stílbrögð í tal- og ritmáli,
    • að draga saman og nýta upplýsingar úr ýmiss konar heimildum og flétta saman við eigin viðhorf og ályktanir á heiðarlegan hátt,
    • að flytja af nokkru öryggi ræður, endursagnir, lýsingar og kynningar á tileknum málefnum,
    • að lesa sér til gagns og gamans bókmenntaverk jafnt sem nytjatexta og fjalla um inntak þeirra.

    HÆFNI

    Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

    • vinna að skapandi verkefnum í tengslum við námsefnið og sýna töluverð tilbrigði í málnotkun,
    • styrkja eigin málfærni og nám í erlendum tungumálum, til dæmis með því að nýta málfræðiupplýsingar í handbókum,
    • beita skýru, lýtalausu og blæbrigðaríku máli í ræðu og riti,
    • taka þátt í málefnalegum umræðum, byggja upp skýra röksemdafærslu, tjá afstöðu og efasemdir um efniðog komast að niðurstöðu,
    • túlka texta þó merkingin liggi ekki á yfirborðinu.

     

     

    HÆFNIÞREP 3

    ÞEKKING

    Nemandi skal hafa aflað sér þekkingar og skilnings á:

    • ritgerðasmíð og heimildavinnu,
    • helstu einkennum íslensks máls sem nýtast í ræðu og riti, sem og til náms í erlendum tungum,
    • orðaforða sem nægir til að lesa helstu verk íslenskrar bókmenntasögu,
    • mismunandi tegundum bókmennta og nytjatexta, stefnum í íslenskum bókmenntum að fornu og nýju og öllum helstu bókmenntahugtökum.

    LEIKNI

    Nemandi skal hafa öðlast leikni í:

    • ritun heimildaritgerða þar sem hann beitir gagnrýninni hugsun við úrvinnslu og kemur efninu á framfæri á skýran og greinargóðan hátt á blæbrigðaríku máli,
    • frágangi heimildaritgerða og hvers kyns texta og að nýta sér uppbyggilega gagnrýni annarra til betrumbóta,
    • að nýta málfræðihugtök af öryggi í umræðum um málið og þróun þess, menningu og sögu, 
    • að skilja og nota viðeigandi stílbrögð, orðatiltæki og menningarlegar vísanir í tal- og ritmáli,
    • að draga saman og nýta á viðurkenndan og gagnrýninn hátt upplýsingar úr hvers kyns heimildum, hvort sem er í ræðu eða riti, og meta áreiðanleika þeirra,
    • að flytja af öryggi og sannfæringarkrafti vel upp byggða ræðu eða ítarlega kynningu á flóknu efni,
    • að lesa allar gerðir ritaðs máls að fornu og nýju sér til gagns og gamans, skilja lykilhugtök og greina mismunandi sjónarmið.

    HÆFNI

    Nemandi skal geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

    • skrifa skýran, vel uppbyggðan og grípandi texta og geta valið ritstíl eftir aðstæðum og viðtakendum,
    • leggja mat á og efla eigin málfærni og annarra, til dæmis með því að nýta málfræðiupplýsingar og þekkingu sína á íslenska málkerfinu,
    • beita málinu á viðeigandi og árangursríkan hátt við mismunandi aðstæður í ræðu og riti,
    • tjá rökstudda afstöðu við ýmsar kringumstæður, útskýra sjónarmið og taka virkan þátt í málefnalegum umræðum til að komast að vel ígrundaðri niðurstöðu,
    • draga saman aðalatriði, beita gagnrýninni hugsun við lestur, túlkun og úrvinnslu krefjandi texta, átta sig á samfélagslegum skírskotunum og ná duldum boðskap og hugmyndum,
    • sýna þroskaða siðferðisvitund, víðsýni, sköpunarhæfni og samlíðan í málflutningi sínum, umfjöllun og verkum.