2

Skilgreining á almennri menntun er ekki einhlít. Hún er bundin við stund og stað og jafnvel einstaklingsbundin. Til forna mynduðu hinar sjö frjálsu listir umgjörð um almenna menntun yfirstéttarinnar. Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum og með iðnbyltingunni kom fram ný tækni og fræðasvið sem lögðu grunn að almennri menntun í nútímasamfélagi. Á 21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna.

Almenn menntun stuðlar á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Almenn menntun miðar að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklingsmiðuð og samfélagsleg.

Almenna menntun öðlast fólk víðar en í skólakerfinu. Skólakerfið er þó mikilvægasti grundvöllur þess að samfélagið tryggi almenna menntun. Því er eðlilegt að skýra grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og tengja þá meginsviðum þekkingar og leikni sem einstaklingum standa til boða í skólunum. Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.

  • Sú menntastefna sem birt er í þessari aðalnámskrá er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina.

    Þessir grunnþættir eru:

    • læsi,
    • sjálfbærni,
    • heilbrigði og velferð,
    • lýðræði og mannréttindi,
    • jafnrétti,
    • sköpun.

     

    Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Ennfremur er stuðst við stefnu stjórnvalda í ýmsum málaflokkum, t.d. ritinu Velferð til framtíðar um áherslur í stefnu um sjálfbæra þróun. Tekið er tillit til stefnu alþjóðlegra stofnana og alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að, svo sem barna­sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og stefnumörkun UNESCO um almenna menntun og um sjálfbæra þróun og stefnumörkun Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi. Við mörkun stefn­unnar sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna er einnig höfð hliðsjón af hugmyndum um fag­mennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum í landinu.

    • Heilbrigði byggist á andlegri, líkamlegri og félagslegri vellíðan. Það ræðst af flóknu samspili einstaklings, aðstæðna og umhverfis. Allt skólastarf þarf að efla heilbrigði og stuðla markvisst að velferð og vellíðan enda verja börn og ungmenni stórum hluta dagsins í skóla.

      Í skólum þarf að skapa jákvæðan skólabrag og heilsueflandi umhverfi þar sem markvisst er hlúð að þroska og heilbrigði frá ýmsum hliðum. Helstu þættir heilbrigðis sem leggja þarf áherslu á eru: jákvæð sjálfsmynd, hreyfing, næring, hvíld, andleg vellíðan, góð samskipti, öryggi, hreinlæti, kynheilbrigði og skilningur á eigin tilfinningum og annarra.

      Skólastjórnendur, kennarar og annað starfsfólk skóla þarf að vera meðvitað um hvað felst í heilsutengdum forvörnum og geta nýtt sér áreiðanlegar upplýsingar um þætti sem hafa áhrif á heilbrigði. Í skólum þarf að skapa börnum og ungmennum aðstæður til heilbrigðra lífshátta. Efla þarf færni þeirra í samskiptum, uppbyggingu sjálfsmyndar, ákvarðanatöku, markmiðasetningu og streitustjórnun. Nauðsynlegt er að þau öðlist skilning á þeim áhrifum sem menning, fjölmiðlar og tækni geta haft á heilsu og líðan. Markmið þess er meðal annars að styðja börn og ungmenni svo að þau geti tekið upplýstar og ábyrgar ákvarðanir í tengslum við eigið heilbrigði.

      Í skóla, sem leggur áherslu á daglega hreyfingu og markvisst hreyfiuppeldi, er lagður grunnur að líkamlegri, andlegri og félagslegri velferð til lífstíðar. Veita þarf fræðslu um hreyfingu, efla hreyfifærni og skapa öruggt umhverfi sem hvetur alla til hreyfingar. Taka þarf mið af þessu í íþróttakennslu og öllu öðru skólastarfi. Í skólaumhverfinu þarf á sama hátt að stuðla að heilsusamlegu fæðuvali með fræðslu og góðu framboði á fjölbreyttum mat. Leggja þarf áherslu á uppeldis- og félagslegt gildi máltíða meðal annars með því að gefa nægan tíma til að nærast.

      Mikilvægt er að skólinn taki mið af þörfum allra barna og ungmenna á einstaklingsbundinn hátt. Allir þurfa tækifæri til að njóta styrkleika sinna sem er lykilþáttur í að byggja upp jákvæða sjálfsmynd. Mörg áhugamál barna og ungmenna stuðla að heilbrigði og geta nýst í þessu samhengi. Með því að gefa áhugasviðum þeirra rými í skólastarfinu gefst tækifæri til að vinna út frá styrkleikum og áhuga, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og efla þannig heilbrigði.

      Til að mæta áherslum um heilbrigði þurfa allir sem í skólum starfa að skoða störf sín með hliðsjón af heilbrigði og vinna í sameiningu að skýrum markmiðum sem styðja jákvæðan skólabrag, bættan námsárangur og vellíðan. Þar gegnir starfsfólk skóla miklu hlutverki sem fyrirmyndir. Einnig þarf að vinna náið með foreldrum, heilsugæslu og aðilum úr nærumhverfinu því að slík samvinna er forsenda þess að góður árangur náist.