2

Skilgreining á almennri menntun er ekki einhlít. Hún er bundin við stund og stað og jafnvel einstaklingsbundin. Til forna mynduðu hinar sjö frjálsu listir umgjörð um almenna menntun yfirstéttarinnar. Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum og með iðnbyltingunni kom fram ný tækni og fræðasvið sem lögðu grunn að almennri menntun í nútímasamfélagi. Á 21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna.

Almenn menntun stuðlar á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Almenn menntun miðar að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklingsmiðuð og samfélagsleg.

Almenna menntun öðlast fólk víðar en í skólakerfinu. Skólakerfið er þó mikilvægasti grundvöllur þess að samfélagið tryggi almenna menntun. Því er eðlilegt að skýra grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og tengja þá meginsviðum þekkingar og leikni sem einstaklingum standa til boða í skólunum. Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.

  • Sú menntastefna sem birt er í þessari aðalnámskrá er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina.

    Þessir grunnþættir eru:

    • læsi,
    • sjálfbærni,
    • heilbrigði og velferð,
    • lýðræði og mannréttindi,
    • jafnrétti,
    • sköpun.

     

    Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Ennfremur er stuðst við stefnu stjórnvalda í ýmsum málaflokkum, t.d. ritinu Velferð til framtíðar um áherslur í stefnu um sjálfbæra þróun. Tekið er tillit til stefnu alþjóðlegra stofnana og alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að, svo sem barna­sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og stefnumörkun UNESCO um almenna menntun og um sjálfbæra þróun og stefnumörkun Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi. Við mörkun stefn­unnar sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna er einnig höfð hliðsjón af hugmyndum um fag­mennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum í landinu.

    • Nám á sér stað þegar einstaklingur vinnur með áreiti, tengir það fyrri þekkingu og skapar nýja. Þannig er menntun í rauninni sjálfssköpun, leið upplýsts einstaklings til að verða ,,meira í dag en í gær“. Sköpunarþrá á sér rætur í meðfæddri forvitni, athafnaþrá og stuðlar að frumkvæði einstaklingsins. Sköpunargleði leiðir til námsáhuga þegar börn og ungmenni skynja merkingu viðfangsefnanna og gildi þeirra.

      Í sköpun felst að móta viðfangsefni og miðla þeim, búa til, gera eitthvað nýtt eða öðruvísi en viðkomandi kann eða hefur gert áður. Sköpun er að uppgötva, njóta, örva forvitni og áhuga, virkja ímyndunarafl og leika sér með möguleika. Sköpun er að sjá fyrir það óorðna og framkvæma það. Sköpun byggist á forvitni, áskorun, spennu og leit. Glíman við viðfangsefnið og það að finna lausn getur verið umbun sköpunarinnar í sjálfu sér. Sköpun brýtur hefðbundin mynstur, reglur og kerfi og veitir nýja sýn á fyrirbæri og viðteknar hugmyndir.

      Sköpun byggist á gagnrýninni hugsun og aðferðum sem opna sífellt nýja möguleika og því skiptir sköpunarferlið ekki síður máli en afrakstur verksins. Að skapa er að fara út fyrir mengi hins þekkta og þar með auka þekkingu sína og leikni. Þótt sköpun í almennum skilningi sé vissulega nátengd listum og listnámi er sköpun sem grunnþáttur ekki bundin við listgreinar fremur en aðrar námsgreinar og námssvið. Sköpun sem grunnþáttur skal stuðla að ígrundun, persónulegu námi og frumkvæði í skólastarfi.

      Sköpunarkraftur og innsæi eru lykilorð í þessu samhengi. Gagnrýnin hugsun er lykilþáttur í læsi og sköpun og fléttast saman við hlutverk gagnrýninnar hugsunar í lýðræði. Í sköpuninni felst hagnýting hugmynda og mótun viðhorfa, gildismats og hæfni. Vinnubrögð í listsköpun og vísindum einkennast oft af sköpunargleði, frumkvæði og frumleika. Þannig vinnubrögð er æskilegt að sjá í öllu námi og öllu námi og skólastarfi. Sköpun snýst ekki eingöngu um nýtt og frumlegt heldur og hagnýtingu þess sem fyrir er. Hún snýst þannig um lausnir viðfangsefna og leit að nýjum möguleikum. Þetta fléttast vel saman við menntun til sjálfbærni og læsi í víðum skilningi.

      Leikur er mikilvæg námsaðferð og opnar víddir þar sem sköpunargleði barna og ungmenna getur notið sín. Hamingja og gleði liggja í því að finna hæfileikum sínum farveg og fá að njóta sín sem einstaklingur og hluti af heild. Sköpun er mikilvægur grunnur að því að horfa til framtíðar og móta sér framtíðarsýn, taka þátt í mótun lýðræðissamfélags og skapa sér hlutverk innan þess.