2

Skilgreining á almennri menntun er ekki einhlít. Hún er bundin við stund og stað og jafnvel einstaklingsbundin. Til forna mynduðu hinar sjö frjálsu listir umgjörð um almenna menntun yfirstéttarinnar. Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum og með iðnbyltingunni kom fram ný tækni og fræðasvið sem lögðu grunn að almennri menntun í nútímasamfélagi. Á 21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna.

Almenn menntun stuðlar á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Almenn menntun miðar að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklingsmiðuð og samfélagsleg.

Almenna menntun öðlast fólk víðar en í skólakerfinu. Skólakerfið er þó mikilvægasti grundvöllur þess að samfélagið tryggi almenna menntun. Því er eðlilegt að skýra grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og tengja þá meginsviðum þekkingar og leikni sem einstaklingum standa til boða í skólunum. Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.

  • Sú menntastefna sem birt er í þessari aðalnámskrá er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina.

    Þessir grunnþættir eru:

    • læsi,
    • sjálfbærni,
    • heilbrigði og velferð,
    • lýðræði og mannréttindi,
    • jafnrétti,
    • sköpun.

     

    Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Ennfremur er stuðst við stefnu stjórnvalda í ýmsum málaflokkum, t.d. ritinu Velferð til framtíðar um áherslur í stefnu um sjálfbæra þróun. Tekið er tillit til stefnu alþjóðlegra stofnana og alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að, svo sem barna­sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og stefnumörkun UNESCO um almenna menntun og um sjálfbæra þróun og stefnumörkun Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi. Við mörkun stefn­unnar sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna er einnig höfð hliðsjón af hugmyndum um fag­mennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum í landinu.

    • Læsi hefur löngum verið tengt við þá kunnáttu og færni sem fólk þarfnast til þess að geta fært hugsun sína í letur (ritað) og skilið prentaðan texta (lesið). Það hefur snúist um eitt kerfi tákna, prentmálið, og þá menningu og þau tjáningarform sem tengdust því. Í skólum hafa menn litið svo á að færni á þessu sviði væri fyrst og fremst bundin við einstaklinga og hægt væri að mæla hana, sumir væru fluglæsir en aðrir treglæsir eða jafnvel ólæsir.

      Með tímanum hafa hugmyndir manna um læsi breyst enda hefur fræðafólk í ýmsum greinum varpað á það ljósi með rannsóknum sínum. Þótt kunnáttumenn séu ekki sammála um allt sem lýtur að læsi má nefna nokkur mikilvæg atriði sem þeir hafa bent á: Læsi snýst um samkomulag manna um málnotkun og merkingu orða í málsamfélagi og er því félagslegt í eðli sínu. Það er háð hefð og er því ekki færni sem einstaklingar geta öðlast og beitt óháð stað og stund, menningu og gildum. Læsi krefst skriffæra, efnis til að skrifa á og miðils, t.d. bókar, til að koma ritsmíðinni á framfæri og snýst því að hluta til um tæknimiðla og verkkunnáttu.

      Þrátt fyrir að læsi snúist um kerfisbundin tákn og miðlunartækni ber að undirstrika að það snýst fyrst og fremst um sköpun merkingar og sú merkingarsköpun á sér aldrei stað í tómarúmi. Tvær manneskjur kunna til dæmis að skilja tiltekinn texta á ólíkan máta þótt lestrartækni þeirra, hljóðkerfisvitund og orðaforða svipi mjög saman. Ekki er hægt að segja í þessu tilviki að þær séu misvel læsar heldur ræðst merkingarsköpun þeirra af þeirri reynslu sem þær hafa og ótal aðstæðubundnum þáttum sem orka á túlkun þeirra og skilning. Sumt er jafnframt erfitt að skilja án þess að þekkja til umræðuhefðar og orðanotkunar sem er við lýði í ýmsum hópum samfélagsins.

      Það eru ekki aðeins rannsóknir á læsi sem hafa breytt afstöðu fólks til þess heldur hefur stafræn tækni breytt því umhverfi þar sem ritun og lestur eiga sér stað. Tölvur og stafræn samskiptatæki teljast víða ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks, heima jafnt sem á vinnustað, og þykja orðið sjálfsögð verkfæri í skólastarfi. Þar skiptir það höfuðmáli að tölvurnar eru ekki aðeins öflug ritvinnslu- eða reikningsverkfæri heldur tól sem má nota til fjölþættrar merkingarsköpunar, t.d. með notkun myndmáls. Nemendur og kennarar þurfa því ekki að binda sig við prentmálið heldur býður tölvutæknin upp á að þeir noti fleiri mál við nám og kennslu. Nú geta þeir rætt það, við undirbúning athugunar eða verkefnavinnu af ýmsu tagi, með hvaða hætti sé skynsamlegt að afla efnis og vinna úr því. Á að miðla því í stuttmynd eða bæklingi, útvarpsþætti eða á vef?

      Við þessar aðstæður hafa orðið til heiti á borð við stafrænt læsi, miðlamennt og miðlalæsi. Hið stafræna læsi vísar til þeirrar kunnáttu sem fólk þarf að tileinka sér til þess að geta notað tölvu- og nettækni til samskipta og efnissköpunar af ýmsu tagi. Það snýst um orð jafnt sem ljósmyndir, prentað mál jafnt sem tónlist, og það varðar allt litróf efnisumsýslunnar, þ.e. aðföng, úrvinnslu og miðlun.

      Hugtakið miðlamennt vísar til skólastarfs þar sem nemendur nota ýmsa miðla við nám sitt og læra í leiðinni sitthvað um notagildi þeirra og áhrif á menningu og lýðræði. Markmiðið er að þeir læri að leggja mat á miðlað efni en fái einnig þjálfun í að nota ýmsa miðla við efnisgerð og þekkingarsköpun. Orðið miðlalæsi er haft um þá færni og kunnáttu sem þeir öðlast við það nám sem í þessu felst.

      Þótt þeim verkfærum, sem nota má í skólastarfi hafi fjölgað, dregur það þó engan veginn úr mikilvægi ritunar og lesturs í hefðbundnum skilningi. Sem fyrr skiptir það miklu máli að börn nái tökum á tiltekinni lestrar- og ritunartækni en athyglin beinist nú jafnframt að allri þeirri tækni sem nemendur geta notað í samskiptum, námi og merkingarsköpun – í þágu sjálfra sín og samfélagsins.

      Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.