2

Skilgreining á almennri menntun er ekki einhlít. Hún er bundin við stund og stað og jafnvel einstaklingsbundin. Til forna mynduðu hinar sjö frjálsu listir umgjörð um almenna menntun yfirstéttarinnar. Miðaldakirkjan skilgreindi almenna menntun í Evrópu á miðöldum út frá sínum þörfum og með iðnbyltingunni kom fram ný tækni og fræðasvið sem lögðu grunn að almennri menntun í nútímasamfélagi. Á 21. öld er almenn menntun skilgreind út frá samfélagslegum þörfum og þörfum einstaklinganna.

Almenn menntun stuðlar á hverjum tíma að aukinni hæfni einstaklingsins til að takast á við áskoranir daglegs lífs. Almenn menntun miðar að því að efla skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum og þar með hæfni til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklingsmiðuð og samfélagsleg.

Almenna menntun öðlast fólk víðar en í skólakerfinu. Skólakerfið er þó mikilvægasti grundvöllur þess að samfélagið tryggi almenna menntun. Því er eðlilegt að skýra grunnþætti menntunar í aðalnámskrá og tengja þá meginsviðum þekkingar og leikni sem einstaklingum standa til boða í skólunum. Almenn menntun byggist á fjölbreyttu námi á meginsviðum menningar okkar, umhverfis og samfélags. Stefnt er að almennri menntun í heildstæðu skólastarfi og námi á námssviðum, í námsgreinum og námsáföngum. Skilgreining á grunnþáttum er tilraun til að kortleggja þau meginsvið almennrar menntunar sem skólastarfið stefnir að.

  • Sú menntastefna sem birt er í þessari aðalnámskrá er reist á sex grunnþáttum menntunar sem eru leiðarljós við námskrárgerðina.

    Þessir grunnþættir eru:

    • læsi,
    • sjálfbærni,
    • heilbrigði og velferð,
    • lýðræði og mannréttindi,
    • jafnrétti,
    • sköpun.

     

    Grunnþættirnir eiga sér stoð, hver með sínum hætti, í löggjöf fyrir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Einnig er sótt til annarrar löggjafar þar sem finna má ákvæði um menntun og fræðslu í skólakerfinu, svo sem í lögum um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla. Ennfremur er stuðst við stefnu stjórnvalda í ýmsum málaflokkum, t.d. ritinu Velferð til framtíðar um áherslur í stefnu um sjálfbæra þróun. Tekið er tillit til stefnu alþjóðlegra stofnana og alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að, svo sem barna­sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og stefnumörkun UNESCO um almenna menntun og um sjálfbæra þróun og stefnumörkun Evrópuráðsins um lýðræði og mannréttindi. Við mörkun stefn­unnar sem birtist í skilgreiningu grunnþáttanna er einnig höfð hliðsjón af hugmyndum um fag­mennsku kennara og reynslu úr þróunarstarfi í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum í landinu.

    • Markmið jafnréttismenntunar er að skapa tækifæri fyrir alla til að þroskast á eigin forsendum, rækta hæfileika sína og lifa ábyrgu lífi í frjálsu samfélagi í anda skilnings, friðar, umburðarlyndis, víðsýnis og jafnréttis. Í skólastarfi skulu allir taka virkan þátt í að skapa samfélag jafnréttis og réttlætis. Jafnréttismenntun felur í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu og stofnunum þess í því augnamiði að kenna börnum og ungmennum að greina þær aðstæður sem leiða til mismununar sumra og forréttinda annarra.

      Jafnréttismenntun vísar í senn til inntaks kennslu, námsaðferða og námsumhverfis. Jafnrétti er regnhlífarhugtak sem nær til margra þátta. Hér á eftir er upptalning nokkurra þeirra í stafrófsröð: Aldur, búseta, fötlun, kyn, kynhneigð, litarháttur, lífsskoðanir, menning, stétt, trúarbrögð, tungumál, ætterni, þjóðerni. Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks.

      Í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla eru skýr ákvæði um að á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem m.a. sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi. Áherslu ber að leggja á að drengir og stúlkur eigi sem víðtækasta og jafnasta möguleika. Hvergi í skólastarfinu, í inntaki né starfsháttum, ættu að vera hindranir í vegi hvors kynsins. Mikilvægt er að í öllu skólastarfi, jafnt í kennslustundum sem í öllum samskiptum, séu þessi ákvæði jafnréttislaga höfð að leiðarljósi. Jafnframt er mikilvægt að draga fram að ýmsir búa við margþætta mismunun þegar fleiri slíkir þættir tvinnast saman, til dæmis kyn og fötlun, kynhneigð og þjóðerni, aldur og búseta. Í þessu skyni er eðlilegt að nýta sér í skólastarfinu þekkingu sem nýjar fræðigreinar, svo sem kynjafræði, hinseginfræði, fjölmenningarfræði og fötlunarfræði, hafa vakið athygli á.

      Undir jafnréttismenntun fellur m.a. nám um kyn og kynhneigð. Með grunnþættinum jafnrétti er einnig lögð áhersla á að fram fari nám um menningu, þjóðerni, tungumál, trúarbrögð og lífsskoðanir. Eitt af viðfangsefnunum er þróun Íslands sem fjölmenningarsamfélags. Með jafnrétti er einnig lögð áhersla á félagslegan skilning á því hvað felst í fötlun. Áskoranir fólks með fötlun eiga ekki síður rætur í umhverfinu en í skerðingu einstaklings. Leggja skal áherslu á skóla án aðgreiningar í öllu skólastarfinu.

      Mikilvægt er að skapa meðvitund um mismunandi félagsstöðu og vægi ungra og aldraðra til samanburðar við þá sem eru nær miðjum aldri. Nota má staðalmyndir, einkenni og sögulega þróun mismunandi aldursskeiða, þ.e. barnæsku, unglingsára, fullorðinsára og elliára, og ólíka merkingu þessara aldursskeiða á mismunandi tímum og í ólíkum menningarheimum. Einnig má skoða ólíkt aðgengi að samfélagslegum gæðum eftir stétt, búsetu og fjárráðum. Skoða má áhrif stéttar og búsetu á heilsu, náms- og atvinnumöguleika og aðgengi að valdastöðum í samfélaginu.