Skólar geta samið áfangalýsingar í tengslum við gerð námsbrautalýsinga. Hver áfangalýsing er skipulögð sem sjálfstæð heild og ber sérstakt áfanganúmer.
Námsáfangar skulu tengdir við hæfniþrep og er miðað við að lágmark 75% viðfangsefna áfangans falli innan skilgreinds þreps. Í áfangalýsingu skal koma fram hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur þurfa að ná, krafa um undanfara og umfang áfangans í framhaldsskólaeiningum. Ráðuneytið birtir sniðmát um uppbyggingu áfangalýsinga og reglur um númerakerfi.
Við upphaf kennslu skal liggja fyrir námsáætlun (kennsluáætlun) í öllum áföngum. Þar skulu meðal annars koma fram:
- viðmið um þekkingu, leikni og hæfni,
- almenn lýsing á viðfangsefnum áfangans,
- námsefni og verkefni,
- fyrirkomulag námsmats.
Kjarnagreinar framhaldsskóla eru íslenska, stærðfræði og enska. Allar námsbrautir skulu að jafnaði gera kröfu til þess að nemendur öðlist að minnsta kosti hæfni sem nemur lýsingu á fyrsta hæfniþrepi kjarnagreina í viðauka 3. Við skipulag námsbrauta geta hæfniviðmið brautanna falið í sér kröfu um að nemendur þurfi að ná meiri hæfni í kjarnagreinum.
Framhaldsskólar skulu skipuleggja námsbrautir þannig að allir nemendur 18 ára og yngri stundi íþróttir – líkams- og heilsurækt. Jafnframt skulu framhaldsskólar skipuleggja námsbrautir þannig að nemendum gefist kostur á að taka íþróttaáfanga á hverri önn.
Comments:
|