10

Framhaldsskólar, einn eða fleiri sameiginlega, gera tillögu að námsbrautarlýsingu og leggja hana fyrir ráðuneyti til staðfestingar. Námsbrautalýsingar, sem hlotið hafa staðfestingu, eru þar með hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Ráðuneytið mun gefa út námsbrautalýsingar, dæmabrautir, sem einstakir framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar við gerð námsbrautalýsinga til framhaldsskólaprófa, starfsréttindaprófa, stúdentsprófa og annarra lokaprófa. Gert er ráð fyrir að dæmabrautir séu unnar í samstarfi við framhaldsskóla, háskóla og atvinnulíf og verði hafðar til hliðsjónar í staðfestingarferli ráðuneytisins. Ráðuneyti getur staðfest dæmabrautir þannig að þær verði hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Við þróun námsbrauta leggur ráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á námslokum á ólíkum hæfniþrepum. Jafnframt sé tryggt að nemendum sem ljúka námi sem skilgreint er á fyrsta eða öðru hæfniþrepi, gefist kostur á áframhaldandi námi.

Námsbrautalýsingar skulu byggðar upp í samræmi við ákvæði almenns hluta aðalnám-skrár framhaldsskóla og skólanámskrár viðkomandi skóla. Í námsbrautarlýsingu skal m.a. fjallað um:

 • tengsl náms við atvinnulíf og/eða önnur skólastig,
 • skipulag náms, svo sem lokamarkmið, umfang náms, á hvaða hæfniþrepi námslokin eru skilgreind, hvort um er að ræða framhaldsskólapróf, próf til starfsréttinda, stúdentspróf, önnur lokapróf eða viðbótarnám við framhaldsskóla,
 • inntökuskilyrði og skilyrði um framvindu náms,
 • hvar og hvernig grunnþættir og lykilhæfni endurspeglast í almennri og sérhæfðri menntun námsbrautar,
 • nám, kennslu og námsmat,
 • uppbyggingu náms á hæfniþrep og áfangalýsingar.

Hér á eftir fara helstu reglur um gerð námsbrautalýsinga og gilda þær við skipulag allra námsbrauta óháð viðfangsefnum og nemendahópum.

 • Ráðuneytið setur fram kröfur um hvernig námsáfangar brautar skuli dreifast á mismunandi hæfniþrep. Sú krafa er breytileg eftir því á hvaða hæfniþrep námslok námsbrautar eru skilgreind. Krafa um hlutfall áfanga á hverju þrepi er gefin upp á ákveðnu bili, til að gefa skólum og nemendum möguleika á að skipuleggja námið með mismunandi mikilli sérhæfingu. Kröfur um dreifingu áfanga á hæfniþrep mynda sniðmát sem framhaldsskólar skulu nota við skipulag námsbrauta en ráðuneytið tekur einnig mið af þeim við ákvörðun um staðfestingu. Sniðmátunum er ætlað að tryggja stíganda í námi þannig að námsbrautin skili nemendum með þá hæfni sem krafist er við námslok. Þannig eru þau liður í gæðatryggingu námsins. Sniðmátunum er einnig ætlað að auðvelda samanburð milli námsbrauta, mat nemenda milli skóla og vera til hliðsjónar fyrir ráðuneytið við staðfestingu námsbrauta.

  Við skipulag námsbrauta skulu framhaldsskólar leitast við að gefa nemendum tækifæri á bundnu og/eða frjálsu vali en þó þannig að kröfur ráðuneytis séu uppfylltar. Framhaldsskólum er þó heimilt, við skipulag námsbrauta, að skylda nemendur til að taka meira en lágmarksfjölda framhaldsskólaeininga í bæði kjarnagreinum og öðrum greinum. Við val á skylduáföngum skal horft til kröfu um lykilhæfni, hæfniviðmiða námsbrautar og kröfu atvinnulífs og næsta skólastigs um nauðsynlegan undirbúning.

  Við skipulagningu námsbrauta er skólum skylt að sjá til þess að nemendum gefist kostur á að öðlast skilgreinda lykilhæfni. Hvernig þessu er hagað skal koma skýrt fram í námsbrautarlýsingu og skólanámskrá. Hér getur skóli ýmist valið að gera hinum ýmsu þáttum og sviðum lykilhæfninnar skil í samþættum viðfangsefnum eða innan vébanda hefðbundinna námsgreina, þar sem það á við, svo sem innan íslensku, íþrótta, erlendra tungumála, lífsleikni, náttúrufræði, sögu, stærðfræði og upplýsingatækni.

  Framhaldsskólum er heimilt að bjóða upp á námsleiðir sem gefa nemendum kost á að skipuleggja nám sitt að stórum hluta sjálfir og flokkast þær undir önnur lokapróf eða stúdentspróf. Slíkar námsleiðir lúta sömu reglum og aðrar námsbrautir hvað varðar uppbyggingu og innihald. Réttindi, sem ávinnast við þessar námsleiðir, eru algerlega háð samsetningu námsins og er mikilvægt að nemendum sé gerð skýr grein fyrir því. Þar skiptir leiðsögn náms- og starfsráðgjafa miklu máli.