10

Framhaldsskólar, einn eða fleiri sameiginlega, gera tillögu að námsbrautarlýsingu og leggja hana fyrir ráðuneyti til staðfestingar. Námsbrautalýsingar, sem hlotið hafa staðfestingu, eru þar með hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Ráðuneytið mun gefa út námsbrautalýsingar, dæmabrautir, sem einstakir framhaldsskólar geta haft til viðmiðunar við gerð námsbrautalýsinga til framhaldsskólaprófa, starfsréttindaprófa, stúdentsprófa og annarra lokaprófa. Gert er ráð fyrir að dæmabrautir séu unnar í samstarfi við framhaldsskóla, háskóla og atvinnulíf og verði hafðar til hliðsjónar í staðfestingarferli ráðuneytisins. Ráðuneyti getur staðfest dæmabrautir þannig að þær verði hluti af aðalnámskrá framhaldsskóla.

Við þróun námsbrauta leggur ráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á námslokum á ólíkum hæfniþrepum. Jafnframt sé tryggt að nemendum sem ljúka námi sem skilgreint er á fyrsta eða öðru hæfniþrepi, gefist kostur á áframhaldandi námi.

Námsbrautalýsingar skulu byggðar upp í samræmi við ákvæði almenns hluta aðalnám-skrár framhaldsskóla og skólanámskrár viðkomandi skóla. Í námsbrautarlýsingu skal m.a. fjallað um:

  • tengsl náms við atvinnulíf og/eða önnur skólastig,
  • skipulag náms, svo sem lokamarkmið, umfang náms, á hvaða hæfniþrepi námslokin eru skilgreind, hvort um er að ræða framhaldsskólapróf, próf til starfsréttinda, stúdentspróf, önnur lokapróf eða viðbótarnám við framhaldsskóla,
  • inntökuskilyrði og skilyrði um framvindu náms,
  • hvar og hvernig grunnþættir og lykilhæfni endurspeglast í almennri og sérhæfðri menntun námsbrautar,
  • nám, kennslu og námsmat,
  • uppbyggingu náms á hæfniþrep og áfangalýsingar.

Hér á eftir fara helstu reglur um gerð námsbrautalýsinga og gilda þær við skipulag allra námsbrauta óháð viðfangsefnum og nemendahópum.

  • Kjarnagreinar framhaldsskóla eru íslenska, stærðfræði og enska. Allar námsbrautir skulu að jafnaði gera kröfu til þess að nemendur öðlist að minnsta kosti hæfni sem nemur lýsingu á fyrsta hæfniþrepi kjarnagreina í viðauka 3. Við skipulag námsbrauta geta hæfniviðmið brautanna falið í sér kröfu um að nemendur þurfi að ná meiri hæfni í kjarnagreinum.