Skólar geta samið áfangalýsingar í tengslum við gerð námsbrautalýsinga. Hver áfangalýsing er skipulögð sem sjálfstæð heild og ber sérstakt áfanganúmer.
Námsáfangar skulu tengdir við hæfniþrep og er miðað við að lágmark 75% viðfangsefna áfangans falli innan skilgreinds þreps. Í áfangalýsingu skal koma fram hvaða þekkingu, leikni og hæfni nemendur þurfa að ná, krafa um undanfara og umfang áfangans í framhaldsskólaeiningum. Ráðuneytið birtir sniðmát um uppbyggingu áfangalýsinga og reglur um númerakerfi.
Við upphaf kennslu skal liggja fyrir námsáætlun (kennsluáætlun) í öllum áföngum. Þar skulu meðal annars koma fram:
- viðmið um þekkingu, leikni og hæfni,
- almenn lýsing á viðfangsefnum áfangans,
- námsefni og verkefni,
- fyrirkomulag námsmats.
Kjarnagreinar framhaldsskóla eru íslenska, stærðfræði og enska. Allar námsbrautir skulu að jafnaði gera kröfu til þess að nemendur öðlist að minnsta kosti hæfni sem nemur lýsingu á fyrsta hæfniþrepi kjarnagreina í viðauka 3. Við skipulag námsbrauta geta hæfniviðmið brautanna falið í sér kröfu um að nemendur þurfi að ná meiri hæfni í kjarnagreinum.
-
Allar brautir til stúdentsprófs skulu innihalda að lágmarki 45 fein. í kjarnagreinum, þ.e. er ensku, íslensku og stærðfræði.
Námsbrautir skulu vera skipulagðar þannig að nemendur nái að lágmarki hæfni á þriðja hæfniþrepi samkvæmt lýsingu í viðauka 3. Heildarfjöldi framhaldsskólaeininga í íslensku á stúdentsbrautum skulu vera að lágmarki 20 fein. og skal þar af vera að lágmarki 10 fein. á þriðja hæfniþrepi. Námsbrautir skulu einnig vera skipulagðar þannig að nemendur nái hæfni í stærðfræði og ensku á öðru hæfniþrepi samkvæmt lýsingum í Viðauka 3. Lágmarksfjöldi eininga á öðru hæfniþrepi eru 5 fein. í annaðhvort stærðfræði eða ensku. Ef valið er að taka lágmarksfjölda eininga á öðru hæfniþrepi í stærðfræði þurfa nemandur að taka fleiri einingar í ensku og öfugt. Þessar reglur eru einnig sýndar í töflu hér að neðan.
Kröfur um kjarnagreinar til stúdentsprófs Kjarnagrein Lágmarkshæfni Kröfur um lágmarksfjölda eininga Íslenska 3. hæfniþrep Heildarfjöldi á 2. og 3. þrepi skal vera að lágmarki 20 fein., þar af 10 fein. á 3. þrepi. Stærðfræði og enska 2. hæfniþrep Kröfur um lágmarksfjölda einingaLágmarksfjöldi á 2. þrepi eru 5 fein. í annaðhvort stærðfræði eða ensku.Ef valið er að taka lágmarksfjölda eininga á öðru hæfniþrepi í stærðfræði þurfa nemendur að taka fleiri einingar í ensku, og öfugt.
Samtals verður að ná 45. fein. Nemendur sem hafa íslensku sem annað tungumál, mega velja stærðfræði eða ensku upp á þriðja hæfniþrep í stað íslensku. Þeir taka þá lágmark 5 fein. á öðru þrepi í íslensku.
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla skal námsmat í lokaáföngum kjarnagreina til stúdentsprófs taka mið af viðmiðunarprófum sem ráðherra lætur í té eða viðurkennir. Ráðuneytið mun birta dæmi um spurningar sem prófa hæfni í kjarnagreinum á öðru og þriðja hæfniþrepi og geta skólar notað þær til viðmiðunar í lokaáföngum kjarnagreina til stúdentsprófs. Einnig geta skólar notað til viðmiðunar lýsingar á þeirri þekkingu, leikni og hæfni sem einkennir kjarnagreinar á mismunandi hæfniþrepum og birtar eru í viðauka 3.
Comments:
|