8

Við þróun námsframboðs leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á að ljúka námi af námsbrautum sem skilgreindar eru á ólík hæfniþrep. Enn fremur er lögð áhersla á að nemendur sem ljúka námi á fyrstu þrepum framhaldsskólans gefist kostur á áframhaldandi námi.

Hér að neðan er fjallað almennt um mismunandi gerðir námsloka en nánari lýsingu má sjá í viðauka 2. Skólar gefa út prófskírteini til staðfestingar námslokum (sjá einnig kafla 11.3).

  • Námslok af námsbrautum sem ekki lýkur með stúdentsprófi, prófi til starfsréttinda eða framhaldsskólaprófi flokkast sem önnur lokapróf. Þarna er um að ræða margs konar námsbrautir sem ýmist eru skilgreindar á hæfniþrep eitt, tvö eða þrjú. Hæfniviðmið námsbrautanna segja til um sérhæfingu sem getur fallið undir starfsnám, listnám, bóknám eða almennt nám. Hæfniviðmið skulu taka mið af kröfu ráðuneytis, hæfnikröfum starfa eða fræðasviða háskólastigsins eftir því sem við á. Ef hæfniviðmið námsbrauta beinast hvorki að því að undirbúa nemendur undir skilgreind störf né áframhaldandi nám á háskólastigi getur skóli leitað til ráðuneytis um leiðsögn um hæfnikröfur.

    Umfang annarra lokaprófa eru mismunandi eftir því hvaða hæfniþrepi námslokin tengjast. Önnur lokapróf með námslok á fyrsta hæfniþrepi eru að jafnaði 30-120 fein., námslok á hæfniþrepi tvö eru að jafnaði 60-120 fein., námslok á hæfniþrepi þrjú eru að jafnaði 150-240 fein. og námslok á hæfniþrepi fjögur eru að jafnaði 30-120 fein. Umfang námsbrauta fyrir nemendur með þroskahömlun geta verið allt að 240 fein. þrátt fyrir að skilgreinast sem önnur lokapróf á fyrsta hæfniþrepi.