8

Við þróun námsframboðs leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á að ljúka námi af námsbrautum sem skilgreindar eru á ólík hæfniþrep. Enn fremur er lögð áhersla á að nemendur sem ljúka námi á fyrstu þrepum framhaldsskólans gefist kostur á áframhaldandi námi.

Hér að neðan er fjallað almennt um mismunandi gerðir námsloka en nánari lýsingu má sjá í viðauka 2. Skólar gefa út prófskírteini til staðfestingar námslokum (sjá einnig kafla 11.3).

  • Stúdentspróf miðar að því að undirbúa nemendur undir háskólanám hérlendis og erlendis. Námstími til stúdentsprófs getur verið breytilegur milli námsbrauta og skóla en framlag nemenda skal þó aldrei vera minna en 200 fein. Námslokin eru í öllum tilvikum skilgreind á hæfniþrep þrjú. Inntak náms til stúdentsprófs er háð lokamarkmiðum námsbrautarinnar en fer einnig eftir því hvers konar undirbúning viðkomandi námsbraut veitir fyrir háskólanám. Uppistaða námsins getur því falið í sér bóknám, listnám eða starfsnám.

    Hæfniviðmið stúdentsbrauta skulu taka mið af kröfum ráðuneytis og hæfnikröfum fræðasviða háskólastigsins. Um nám til stúdentsprófs gilda sérstakar reglur auk ákvæða um lágmarkseiningafjölda. Þær lúta að hæfnikröfum í kjarnagreinum og öðrum greinum auk þeirra reglna sem gilda almennt um innihald og uppbyggingu námsbrauta með námslok á þriðja hæfniþrepi.

    Stúdentsprófi lýkur með útgáfu prófskírteinis þar sem kemur fram á hvaða sérsviði prófið er, hæfniþrep námsloka, upptalning áfanga og einkunna.

    Stúdentsprófið tryggir ekki sjálfkrafa aðgang að öllu námi á háskólastigi. Einstakir háskólar eða háskóladeildir geta sett ýmsar sérkröfur sem nemendur þurfa einnig að uppfylla og í sumum tilvikum geta nemendur þurft að gangast undir inntökupróf. Það er mikilvægt að nemendur, sem stefna að inngöngu á tiltekna námsbraut á háskólastigi, afli sér upplýsinga um þær kröfur sem viðkomandi skóli gerir um undirbúning. Jafnframt er mikilvægt að skólar miðli upplýsingum til nemenda með náms- og starfsráðgjöf.