8

Við þróun námsframboðs leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á að ljúka námi af námsbrautum sem skilgreindar eru á ólík hæfniþrep. Enn fremur er lögð áhersla á að nemendur sem ljúka námi á fyrstu þrepum framhaldsskólans gefist kostur á áframhaldandi námi.

Hér að neðan er fjallað almennt um mismunandi gerðir námsloka en nánari lýsingu má sjá í viðauka 2. Skólar gefa út prófskírteini til staðfestingar námslokum (sjá einnig kafla 11.3).

  • Viðbótarnám við framhaldsskóla felur í sér námslok af námsbrautum sem framhaldsskólar bjóða upp á sem framhald af skilgreindum námslokum á þriðja hæfniþrepi. Viðbótarnám við framhaldsskóla er skilgreint á framhaldsskólastigi og skal námið skilgreint í framhaldsskólaeiningum.

    Háskólar innlendir sem erlendir geta ákveðið að meta viðbótarnám við framhaldsskóla til ECTS-eininga og er þá leyfilegt að geta þess í upplýsingum um námið. Einingafjöldinn er þó algjörlega á forræði hvers háskóla.

    Inntak viðbótarnámsins er breytilegt eftir lokamarkmiðum. Það beinist að aukinni faglegri sérhæfingu, stjórnun og þróun á starfsvettvangi. Ef námið felur í sér löggilt starfsréttindi, svo sem iðnmeistarapróf, ber framhaldsskólum að fylgja þeim hæfnikröfum sem settar eru fram af ráðuneyti í samvinnu við starfsgreinaráð.