8

Við þróun námsframboðs leggur mennta- og menningarmálaráðuneytið áherslu á að nemendum gefist kostur á að ljúka námi af námsbrautum sem skilgreindar eru á ólík hæfniþrep. Enn fremur er lögð áhersla á að nemendur sem ljúka námi á fyrstu þrepum framhaldsskólans gefist kostur á áframhaldandi námi.

Hér að neðan er fjallað almennt um mismunandi gerðir námsloka en nánari lýsingu má sjá í viðauka 2. Skólar gefa út prófskírteini til staðfestingar námslokum (sjá einnig kafla 11.3).

  • Próf til starfsréttinda eru skilgreind sem námslok af námsbraut sem veitir löggilt starfsréttindi eða veitir nemendum heimild til að þreyta sveinspróf í löggiltri iðngrein. Þessi námslok geta verið skilgreind á hæfniþrep tvö, þrjú eða fjögur.

    Hæfniviðmið starfsnámsbrauta skulu taka mið af kröfu ráðuneytis um lykilhæfni og hæfnikröfur starfa sem starfsgreinaráð viðkomandi starfsgreinaflokks eða starfsgreinar skilgreinir. Auk þessa gilda ákveðnar reglur um uppbyggingu námsbrauta.

    Umfang náms er mismunandi eftir því hvaða hæfniþrepi námslokin tengjast. Próf til starfsréttinda með námslok á hæfniþrepi tvö eru að jafnaði 90-120 fein., námslok á hæfniþrepi þrjú eru að jafnaði 150-240 fein. og námslok á hæfniþrepi fjögur eru að jafnaði 30-120 fein.

    Prófum til starfsréttinda lýkur með útgáfu prófskírteinis frá framhaldsskóla og leyfisbréfi frá fagráðuneyti. Í prófskírteini frá framhaldsskóla skulu meðal annars koma fram hæfniþrep námsloka, yfirlit yfir áfanga, vinnustaðanám, starfsþjálfun og einkunnir.