14

Framhaldsskólar eru ýmist sjálfstæðar ríkisstofnanir eða einkaskólar. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði ráðherra eða ábyrgðaraðila einkaskóla, í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á skuldbindingu framhaldsskóla um þjónustu við nemendur. Framhaldsskólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjónar, námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir.

Framhaldsskólar skulu setja fram skýrar verklagsreglur um réttindi og skyldur skóla og nemenda. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hér fram ýmsar reglur sem auðvelda eiga skólum að taka á álitamálum sem varða réttindi, skyldur og þjónustu við nemendur. Sumar þessara reglna eru einnig birtar í lögum og reglugerðum og er þá vísað í þær.

 • Nemendum í opinberum framhaldsskólum stendur til boða, án endurgjalds, kennsla og önnur þjónusta sem skólinn skipuleggur fyrir nemendur. Eftirtalin gjaldtaka er þó heimil samkvæmt ákvæðum sérstakrar reglugerðar um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla.

  Skólameistari ákveður upphæð innritunargjalds en mennta- og menningarmálaráðuneyti ákveður í reglugerð hámarksupphæð þess. Ef nemendur eru innritaðir utan þess tíma sem auglýstur er til innritunar er heimilt að hækka gjaldið um 25% fyrir þá önn.

  Framhaldsskólum er heimilt að innheimta af nemendum, sem njóta verklegrar kennslu, efnisgjald fyrir efni sem skólinn lætur nemendum í té og þeir þurfa að nota í námi sínu. Efnisgjald skal taka mið af raunverulegum efniskostnaði. Ráðuneyti auglýsir á hverjum tíma hámark efnisgjalds. Framhaldsskólar geta boðið upp á nám utan reglubundins daglegs starfstíma og í fjarkennslu. Í slíkum tilvikum er þeim heimilt að taka gjald af nemendum fyrir hluta launakostnaðar vegna kennslunnar. Ráðuneytið setur á hverjum tíma fram nánari reglur um gjaldtöku. Fari nám fram að sumri til er framhaldsskólum heimilt að taka gjald af nemendum til að mæta sérgreindum kostnaði sem fellur til vegna kennslunnar.

  Þá er skólum heimilt að innheimta gjald af nemendum fyrir valkvæða starfsemi, svo sem leikhús-, vettvangs- eða safnferðir í tengslum við námið.

  Heimilt er framhaldsskólum að innheimta gjald fyrir aðra þjónustu sem í boði er og telst ekki vera hluti af eða leiða af lögbundnu hlutverki skóla. Gjaldið tekur til þátta eins og útgáfu skírteina (annarra en prófskírteina), aðgangs að þráðlausu neti og tölvuforritum, útgáfu netfangs, gagnapláss, skápaleigu, prentunar, fjölföldunar og bílastæðis. Skólameistari auglýsir gjaldskrá að höfðu samráði við skólanefnd. Gjaldskrá skal að hámarki miðast við kostnað og skal birta á vef skóla fyrir upphaf innritunartímabils.

  Mat á námi nemenda, sem farið hefur fram innan íslenska skólakerfisins nýlega og krefst ekki umfangsmikillar matsvinnu, skal vera nemendum að kostnaðarlausu. Framhaldsskólum er heimilt að taka hóflegt gjald fyrir umfangsmikla vinnu við raunfærnimat og mat á námi nemenda. Gjaldskrá fyrir þannig mat skal að hámarki miðast við kostnað og birt í skólanámskrá.