14

Framhaldsskólar eru ýmist sjálfstæðar ríkisstofnanir eða einkaskólar. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði ráðherra eða ábyrgðaraðila einkaskóla, í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á skuldbindingu framhaldsskóla um þjónustu við nemendur. Framhaldsskólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjónar, námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir.

Framhaldsskólar skulu setja fram skýrar verklagsreglur um réttindi og skyldur skóla og nemenda. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hér fram ýmsar reglur sem auðvelda eiga skólum að taka á álitamálum sem varða réttindi, skyldur og þjónustu við nemendur. Sumar þessara reglna eru einnig birtar í lögum og reglugerðum og er þá vísað í þær.

  • Gögn í vörslu skóla sem hafa að geyma persónulegar upplýsingar um nemendur skal farið með í samræmi við ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, laga um Þjóðskjalasafn Íslands og ákvæði upplýsingalaga eftir því sem við á. Starfsfólk í framhaldsskólum er bundið trúnaði og óheimilt er að veita persónulegar upplýsingar um lögráða nemendur án samþykkis þeirra eða forsjárforeldra/forráðamanna ef um er að ræða nemendur yngri en 18 ára. Allir framhaldsskólar skulu varðveita upplýsingar um nám nemenda og veita þeim aðgang að þeim upplýsingum. Framhaldsskólar skulu opna forsjárforeldrum og forráðamönnum, barna yngri en 18 ára aðgang að upplýsingakerfi sínu þar sem meðal annars eru birtar einkunnir og skólasókn barna þeirra. Um rétt forsjárlauss foreldris til aðgangs að upplýsingum um barn sitt upp að 18 ára aldri fer samkvæmt ákvæðum barnalaga nr. 76/2003. Þegar nemendur hafa náð lögræðisaldri er einungis heimilt að veita þeim sjálfum, eða þeim sem nemendur veita skriflegt umboð, upplýsingar um mál er varða þá persónulega.

    Framhaldsskólum er þó heimilt að veita öðrum skólum upplýsingar um einstaka nemendur vegna flutnings þeirra milli skóla eða vegna þess að þeir stunda nám við fleiri en einn skóla eða fræðslustofnun. Einnig er heimilt að veita fræðsluyfirvöldum slíkar upplýsingar í skýrt afmörkuðum tilgangi. Sé um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða skulu þær þó ekki afhentar nema með upplýstu samþykki forsjárforeldra eða lögráða nemenda.

    Persónuupplýsingar skulu afhentar á öruggan hátt þannig að fyllsta trúnaðar sé gætt.