14

Framhaldsskólar eru ýmist sjálfstæðar ríkisstofnanir eða einkaskólar. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði ráðherra eða ábyrgðaraðila einkaskóla, í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á skuldbindingu framhaldsskóla um þjónustu við nemendur. Framhaldsskólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjónar, námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir.

Framhaldsskólar skulu setja fram skýrar verklagsreglur um réttindi og skyldur skóla og nemenda. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hér fram ýmsar reglur sem auðvelda eiga skólum að taka á álitamálum sem varða réttindi, skyldur og þjónustu við nemendur. Sumar þessara reglna eru einnig birtar í lögum og reglugerðum og er þá vísað í þær.

  • Nemendur, sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðugleika, tilfinningalegra eða félagslegra örðugleika, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með heilsutengdar sérþarfir og nemendur með fötlun, eiga rétt á sérstökum stuðningi í námi í samræmi við metnar sérþarfir. Nemendur með fötlun skulu stunda nám við hlið annarra nemenda eftir því sem kostur er.

    Mikilvægt er að veita nemendum með sérþarfir kennslu og þann stuðning sem þeir þurfa á að halda og tök eru á að veita, samanber gildandi reglugerð um nemendur með sérþarfir. Það er ýmist gert með því að bjóða fram nám á námsbrautum fyrir fatlaða eða veita þeim sérstakan stuðning á öðrum námsbrautum framhaldsskóla.

    Framhaldsskólar geta leitað til grunnskóla um upplýsingar um einstaka nemendur og er grunnskólum skylt að veita þær með upplýstu samþykki lögráða nemanda eða forsjárforeldra/forráðamanna, sé nemandi yngri en 18 ára. Þá er skólum heimilt að semja við sveitarfélög eða aðra aðila um sérfræðiþjónustu vegna einstakra nemenda til að tryggja sem best samfellu í námi þeirra (sjá viðauka 1).

    Tilfærsluáætlun skal fylgja nemendum með fötlun þegar þeir koma úr grunnskóla samanber reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla (sjá viðauka 1).