Þeir sem lokið hafa grunnskólanámi, hafa hlotið jafngilda undirstöðumenntun eða hafa náð 16 ára aldri eiga rétt á að hefja nám í framhaldsskóla. Þessir einstaklingar eiga jafnframt rétt á því að stunda nám til 18 ára aldurs, samanber þó ákvæði 33. gr. framhaldsskólalaga um skólareglur og meðferð mála.
Brot á skólareglum kann að leiða til þeirra viðurlaga að nemendum verði vísað úr skóla eða tilteknu fagi um nokkurt skeið. Við slíka ákvörðun skólameistara skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Þess skal gætt að forsjárforeldrum/forráðamönnum ólögráða nemenda, ásamt nemendum sjálfum, sé veittur andmælaréttur áður en ákvörðun er tekin um rétt eða skyldu nemenda.
Við innritun hefur framhaldsskólinn sérstökum skyldum að gegna hvað varðar nemendur með fötlun, nemendur sem koma beint úr grunnskóla, nemendur sem flytjast milli anna eða skólaára og aðra þá sem ekki eru orðnir lögráða (18 ára) við innritun.
Í skólasamningi framhaldsskóla við mennta- og menningarmálaráðuneyti skal kveðið sérstaklega á um skyldur viðkomandi framhaldsskóla við innritun nemenda og þær forsendur og kröfur sem skóli leggur til grundvallar við innritun nemenda í skólann eða á einstakar námsbrautir hans. Ráðuneytið ákveður fyrirkomulag innritunar og gefur út leiðbeiningar um frágang umsókna. Að öðru leyti skal horft til gildandi reglugerðar um innritun nemenda.
Til að stuðla að samræmi í námsmati við lok grunnskóla birtir ráðuneytið reglur um viðmið við lok grunnskóla í almennum hluta aðalnámskrár grunnskóla.
Nemendum í opinberum framhaldsskólum stendur til boða, auk kennslu án endurgjalds, öll þjónusta sem skólinn skipuleggur fyrir nemendur. Gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla eru skýrðar í sérstakri reglugerð og er fjallað um þær hér á eftir.
Sem dæmi um lögbundna þjónustu er réttur nemenda til að njóta náms- og starfsráðgjafar og aðgangs að safni sem er upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Það skal búið bókum og nýsigögnum auk annars safnkosts sem tengist kennslugreinum skóla. Í tengslum við starfsemi skólasafns skal vera lesaðstaða með aðgangi að upplýsingaritum.
Comments:
|