14

Framhaldsskólar eru ýmist sjálfstæðar ríkisstofnanir eða einkaskólar. Skólameistari ber ábyrgð á starfsemi skólans í umboði ráðherra eða ábyrgðaraðila einkaskóla, í samræmi við samþykktir, stofnskrá eða önnur stofnskjöl viðkomandi skóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið leggur áherslu á skuldbindingu framhaldsskóla um þjónustu við nemendur. Framhaldsskólum ber að veita nemendum þjónustu svo nám þeirra geti orðið sem árangursríkast. Þjónustan skal taka mið af mismunandi þörfum nemenda og taka til aðgangs að upplýsingum og gögnum, umsjónar, námsaðstöðu og þjónustu fyrir nemendur með sérþarfir.

Framhaldsskólar skulu setja fram skýrar verklagsreglur um réttindi og skyldur skóla og nemenda. Þær skulu birtast í skólanámskrá og vera aðgengilegar nemendum, forráðamönnum og öðrum þeim sem málið varðar. Mennta- og menningarmálaráðuneytið setur hér fram ýmsar reglur sem auðvelda eiga skólum að taka á álitamálum sem varða réttindi, skyldur og þjónustu við nemendur. Sumar þessara reglna eru einnig birtar í lögum og reglugerðum og er þá vísað í þær.

  • Skólareglur skulu birtar í skólanámskrá og vera öllum aðgengilegar. Þær skulu geyma ákvæði um eftirfarandi þætti:

    • skólasókn,
    • hegðun og umgengni,
    • námsmat, námsframvindu og prófareglur,
    • viðurlög vegna brota á skólareglum,
    • reglur um meðferð ágreiningsmála og um beitingu viðurlaga.

    Við ákvörðun skólameistara um rétt eða skyldu nemenda, svo sem brottvísun úr skóla í fleiri en einn skóladag eða að nemandum sé meinað að sækja kennslutíma í ákveðnu fagi eða námsgrein um nokkurt skeið, skal fylgja reglum stjórnsýslulaga um málsmeðferð. Ákvörðun skólameistara er kæranleg til mennta- og menningarmálaráðuneytis. Um málskot gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga.

    • Hver skóli setur sér reglur um boðleiðir og verklag um ágreiningsmál sem upp kunna að koma. Við vinnslu þeirra skal gæta ákvæða stjórnsýslulaga um málsmeðferð.

      Í verklagsreglum skal koma fram:

      • með hvaða hætti nemanda, lögráða og ólögráða, er veitt viðvörun áður en til viðurlaga kemur,
      • kostur á að andmæla fyrirhugaðri ákvörðun og tímafrestur tilgreindur í því skyni,
      • meðferð ágreiningsmála, kvartana og kæra vegna samskipta milli nemenda, kennara og/eða annars  starfsfólks framhaldsskóla,
      • meðferða ágreiningsmála um námsframvindu,
      • meðferð undanþágubeiðna.

      Leitast skal við að leysa ágreiningsmál á vettvangi skóla. Uni nemandi eða forráðamaður hans ekki úrskurði í deilumáli má vísa málinu til mennta- og menningamálaráðuneytisins.

      Framhaldsskólar skulu skrá feril máls þegar ágreiningsmál koma upp innan skólans eða þegar um brot á skólareglum er að ræða. Við meðferð mála skal sérstaklega gæta ákvæða stjórnsýslulaga, laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og upplýsingalaga (sjá Viðauka 1). Leitast skal við að afgreiða brot á skólareglum með skjótum hætti en jafnframt leggja áherslu á öryggi og vandvirkni við úrlausn og afgreiðslu.